Gestur bar veiruna með sér

Frá Úlfjótsvatni.
Frá Úlfjótsvatni. mbl.is//Ragnheiður Davíðsdóttir

Neysluvatnið á útivistarsvæðinu á Úlfljótsvatni er ómengað og olli ekki magakveisunni sem gekk yfir svæðið á dögunum. Vatnssýni voru send til Finnlands og niðurstöður þaðan staðfesta að vatnið er hreint og hæft til drykkjar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við áttum svo sem ekki von á öðru, en auðvitað er samt léttir að fá þessa staðfestingu. Við höfum verið að sjóða neysluvatn eða flytja það á staðinn í flöskum. Nú getum við farið að nota kranavatnið aftur,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns, í fréttatilkynningu.

Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns.
Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns.

„Það bendir allt til þess að einn gesturinn hafi komið með veiruna óafvitandi á svæðið og hún breiðst þaðan á meðal fólks. Það hefur hins vegar ekki borið á neinu eftir að þeir fóru heim aftur.“

Alls var 181 skáti fluttur í fjöldahjálparstöð í Hveragerði þegar smitið kom upp, en tæplega helmingur hópsins veiktist. Veikindin gengu þó fljótt yfir og urðu ekki alvarleg. Eftir að síðustu gestirnir voru farnir heim var ákveðið að loka Úlfljótsvatni fyrir gestum á meðan á þrifum stæði.

„Við ákváðum að hafa lokað í rúmar þrjár vikur, en það á að duga til að vera viss um að veiran sé dauð. Við höfum líka farið eftir leiðbeiningum frá Landspítalanum, sóttvarnalækni og heilbrigðiseftirlitinu varðandi þrif og sótthreinsun. Hér verður því allt hreint, fínt og heilsusamlegt þegar við opnum aftur 8. september. Þetta hefur verið heilmikið og lærdómsríkt ferli, en nú hlökkum við til að geta farið aftur að gera það sem okkur finnst skemmtilegast, að taka á móti æskulýðshópum og fjölskyldum,“ segir Elín að lokum í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert