„Þarf að kynna mér málið betur“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég þarf bara að skoða þetta og kynna mér málið betur og kanna hvort það heyrir undir nefndina. Síðan verður ákvörðun væntanlega tekin í framhaldinu,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við mbl.is. Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagðist í gær ætla að óska eftir fundi í nefndinni um kaup erlendra ríkisborgara á íslenskum jörðum.

Frétt mbl.is: Þurfum að vera vakandi

Málið snýst um áhuga kínverskra fjárfesta á jörðinni Neðri-Dal í Biskupstungum sem er 1.200 hektarar að stærð og liggur að Geysissvæðinu í Haukadal. Lilja sagði í samtali við mbl.is í gær að hún teldi að fara þyrfti yfir þau lög sem gilda í þessum efnum með það fyrir augum að takmarka frekar heimildir erlendra ríkisborgara til þess að kaupa jarðir hér á landi. Horfa þyrfti til nágrannalandanna í þeim efnum. Móta þyrfti heildarstefnu í þessum málum.

Brynjar segir að beiðni um að fundað verði um málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki enn komið inn á borð til hans en verði stuðningur á meðal nefndarmanna um að slíkur fundur fari fram sé ekkert því til fyrirstöðu að því gefnu að málið heyri undir nefndina. 

„Ég þarf bara aðeins að setja mig inn í málið áður en ég tek ákvörðun um framhaldið,“ segir hann. Það sé ekki endilega ástæða fyrir nefndina að fara af stað í hvert sinn sem fjallað er um mál í fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert