Mjög miklir hagsmunir í húfi

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru fjölmörg rök með því að það eigi ekki að vera sjálfsagt, einfalt og auðsótt að koma og kaupa upp stór lönd á Íslandi, sérstaklega þar sem atvinnustarfsemi hefur verið stunduð,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra spurður um það hvort herða þurfi reglur um eignarhald erlendra ríkisborgara á íslenskum jörðum.

Frétt mbl.is: Kín­verj­ar vilja kaupa jörð á millj­arð

Mikil umræða hefur skapast um málið eftir að upplýst var um áhuga kínverskra fjárfesta á kaupum á jörðinni Neðri-Dal í Biskupstungum fyrir 1,2 milljarða króna til að reka þar ferðaþjónustu. Jörðin, sem er 1.200 hekt­ar­ar að stærð, ligg­ur að Geys­is­svæðinu í Hauka­dal.

Segir Bjarni að í þessu tiltekna tilviki muni þurfa undanþágu þar sem um sé að ræða áhugasama kaupendur utan EES-svæðisins. „Samkvæmt þeim verklagsreglum sem hafa verið settar og eru í gildi í ráðuneytinu er stærð þessarar jarðar langt umfram þau viðmiðunarmörk sem menn hafa verið að vinna með, þannig að fljótt á litið sýnist mér að það myndi eitthvað sérstakt þurfa að koma til svo þetta mál yrði þar samþykkt en það verður auðvitað að ráða því til lykta á réttum vettvangi,“ segir Bjarni.

Frétt mbl.is: Þurf­um að vera vak­andi

Sjálfsagt að reglurnar séu endurskoðaðar

Forsætisráðherrann segir það vera orðið áberandi að þörf sé á því að ná betur utan um heildarumfang erlends eignarhalds á íslenskum bújörðum. „Það eru mörg hundruð milljónir manna sem geta komið til Íslands og sóst eftir því að kaupa fasteignir, jarðir og lönd án þess að það þurfi sérstakar undanþágur á grundvelli reglna EES-samstarfsins,“ segir Bjarni og bætir við að slík jarðarkaup hafi átt sér stað í auknum mæli á undanförnum árum.

Bætir hann við að sér finnist jafnframt sjálfsagt að reglunum sé haldið lifandi og þær séu endurskoðaðar eftir því sem aðstæður kalla á. „Ég veit að í ráðuneytinu sem fjallar um þessi mál er það til skoðunar hvort þörf sé á að setja frekari hömlur og að hvaða marki við getum gert það innan reglna EES-samstarfsins,“ segir Bjarni.

Bendir Bjarni á að reglurnar hafi verið skoðaðar í tengslum við áhuga Kínverjans Huang Nubo á því að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Síðar keypti breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe meirihlutann í Grímsstöðum, en ekki þurfti undanþágu þar sem Ratcliffe kemur frá EES-svæðinu. Þrátt fyrir að reglurnar hafi verið skoðaðar segir Bjarni að ekkert sé því til fyrirstöðu að þær verði endurskoðaðar aftur núna.

Frétt mbl.is: „Gátu sagt sér að Kínverjarnir kæmu aftur“

Breytingar á eignarhaldi óskynsamlegar án þess að spyrnt sé við fótum

Eins og mbl.is hefur greint frá hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður og þingmaður Framsóknarflokksins, óskað eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í kjölfar frétta af áhuga kínversku fjárfestanna á jörðinni Neðri-Dal. Þá hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, tjáð áhyggjur sínar af hugsanlegum kaupum og sagt Framsóknarmenn hafa miklar áhyggjur af þessum málum.

Spurður um það hvort hann sé sammála ummælum Lilju og Sigurðar Inga segir Bjarni: „Ég tel að reglurnar sem hafa verið í gildi um þessi efni og þau viðmið sem dómsmálaráðuneytið hefur sett um þessi mál hafi byggst á þessum sjónarmiðum sem þau hafa verið að tefla fram – það er að segja að það sé óskynsamlegt fyrir þjóðir að láta miklar breytingar á eignarhaldi eiga sér stað án þess að það sé spyrnt við fótum,“ segir Bjarni og heldur áfram:

„Því það eru mjög miklir og víðtækir hagsmunir í húfi sem tengjast allt frá fullveldi okkar Íslendinga yfir í matvælaöryggi og byggðarsjónarmið; að heilu sveitirnar fari ekki úr búskap yfir í að vera frístundabyggð í einu vetfangi án þess að menn hafi íhugað langtímaáhrifin af slíku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert