Ríkið mun afhenda Bláskógabyggð íþróttamannvirki, sundlaug og íþróttahús, á Laugarvatni. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra mun undirrita samning þess efnis fyrir hönd ríkisins á Laugarvatni á morgun. Sveitarfélagið eignast þessi mannvirki og tekur yfir rekstur þeirra.
Sundlaugin og íþróttahúsið lokuðu 1. júní síðastliðinn þegar Háskóli Íslands hætti rekstri þeirra um leið og námi í íþróttafræðum lauk þar í vor og fluttist til Reykjavíkur. Mannvirkin hafa því staðið auð í þrjá mánuði.
„Þetta er ein af grunnþjónustum sveitarfélagsins og mikilvægt að íbúar og nemendur skólanna geti nýtt sér þessi íþróttamannvirki aftur á nýjan leik,“ segir Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar.
Fyrstu skref verða að finna starfsfólk til starfa, segir sveitarstjórinn.
Brýn viðhaldsþörf er á mannvirkjunum. Ekki fékkst uppgefinn áætlaður kostnaður sveitarfélagsins við viðhald og viðgerðir. „Ég get ekki gefið það upp því við erum ekki enn búin að kanna það til fullnustu,“ segir Valtýr en bætir við að kostnaðurinn verði talsverður.