Taka allt kjötið heim og selja

Hjónin Salbjörg Matthíasdóttir og Jónas Þór Viðarsson í Árdal treysta …
Hjónin Salbjörg Matthíasdóttir og Jónas Þór Viðarsson í Árdal treysta bæði á önnur störf til tekjuöflunar. Úr einkasafni

„Við ætlum að taka allt heim því við sjáum ekki fram á að geta borgað einn einasta reikning fyrir innleggið,“ segir Salbjörg Matthíasdóttir, sauðfjár- og ferðaþjónustubóndi í Árdal í Kelduhverfi. Hún hefur ákveðið að taka allt kjöt, 140 skrokka, heim og selja beint til neytenda.

Uggur er í sauðfjárbændum vegna þeirrar stöðu sem greinin er í. Í fyrra lækkuðu afurðastöðvarnar greiðslur til bænda um 10% en lækkunin þetta árið er yfirleitt á bilinu 25-36%. Rætt er um að fækka þurfi fé um 20%.

Salbjörg flutti heim í Árdal um jólin 2014 og tók í kjölfarið við búinu af foreldrum sínum. Hún segir að í ljósi þess að afurðastöðvarnar hafi lækkað verð til bænda jafnmikið og raun beri vitni sjái hún sér ekki annað fært en að taka kjötið heim og reyna að selja sjálf. Hún segir að þau hafi tekið sláturfé heim í litlum mæli frá 2015 en að nú þurfi þau að taka allt. Að öðrum kosti myndi innleggið ekki duga fyrir áburðinum á túnin.

Lifa af öðrum störfum

Hún segir í samtali við mbl.is að hún sé svo heppin að þau hjónin þurfi ekki að byggja afkomu sína á sauðfjárbúskap. Maðurinn hennar, Jónas Þór Viðarsson, sé trésmiður og þau reki auk þess ferðaþjónustu í Árdal. Þá hefur hún einnig tekjur af því að temja hesta. Sauðfjárræktin skili litlu sem engu.

„Túristarnir borguðu plastið þetta árið,“ segir hún og vísar til þess hversu ástandið í sauðfjárræktinni sé bágborið. „Við vorum með reikninga fyrir rúllun og áburð upp á 1,2 milljónir. Ég fékk eina milljón fyrir innleggið í fyrra og seldi þó slatta sjálf.“

Sendir kjötið með flugi

Salbjörg segir að þau muni sækja allt féð til Norðlenska daginn eftir slátrun. Þau leigi vottaða vinnslu á Laugum og vinni kjötið þar. Hún segist ekki þurfa að selja mikið sjálf til að það borgi sig og hún geti borgað reikninga – kannski ekki nema helming fjárins. Hún segist senda fólki kjöt með flugfélaginu Erni og til þessa hafi hún sjálf staðið straum af þeim kostnaði. Hún vonast til að geta gert það áfram en segir það ráðast af eftirspurninni.

Spurð hvort hún hafi velt því fyrir sér að hætta sauðfjárbúskap segir hún að það hafi vissulega hvarflað að henni, sérstaklega í sauðburði og á öðrum álagstímum. Hún hafi hins vegar að öðrum störfum að hverfa auk þess sem hún sé svo heppin að skulda ekkert. Margir aðrir séu í miklu verri stöðu. „Mér finnst þessi staða bara ömurleg og ég er fegin að þurfa ekki að lifa af þessu. Mér finnst þetta bara svo gaman að ég vil reyna að þrauka.“

Oddný Steina Valsdóttir, formaður stjórnar Landssambands sauðfjárbænda.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður stjórnar Landssambands sauðfjárbænda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þurfa að sjá leið út úr storminum

Oddný Steina Valsdóttir, stjórnarformaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir í samtali við mbl.is að heimtaka hafi aukist allnokkuð í fyrra. Hún segir að ekki sé ótrúlegt að þróun í þá átt haldi áfram, enda búi bændur að sjálfsbjargarviðleitni.

Hún segir að viðræður við ráðuneyti landbúnaðarmála gangi hægt og leggur áherslu á mikilvægi þess að tekið verði á ástandinu af krafti. „Mér finnst bara í svona ástandi, sem kemur til vegna utanaðkomandi áhrifa, þá eigi að sýna ábyrgð og taka á hlutunum, en ekki vera í einhverju hálfkáki.“ Hún segir að það sé alveg hægt að takast á við erfiða stöðu tímabundið en að bændur þurfi að sjá að það verði einhverjar leiðir færar út úr stöðunni.

Hún segir hljóðið í bændum þungt og þeir bíði átekta eftir niðurstöðu ráðuneytisins. „Þetta er ofboðslega þungt eins og er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka