Frá árinu 2005 hafa svokallaðir bangsar komið til landsins á viðburðinn Bears on Ice. Nafnið er dregið af bangsasenunni sem á sér langa sögu á meðal samkynhneigðra og vísar til bangsalegs útlits. Upphaf hennar var mótvægi við dívulegt útlit sem var í hávegum haft á áttunda áratugnum.
Frosti Jónsson, einn skipuleggjenda Bears on Ice, segir þó engin skilyrði fyrir þátttökunni og að aðaláherslan sé lögð á að skapa skemmtilegan viðburð þar sem menn geta verið þeir sjálfir. Fram undan er fjölbreytt dagskrá um helgina sem hefst í kvöld á Petersen-svítunni.
mbl.is ræddi við Frosta í dag sem segir að von sé á vel á annað hundrað erlendra gesta á viðburðinn í ár en til viðbótar við það sé töluverður fjöldi Íslendinga sem sæki hann á ári hverju.