Senda þurfti póst út til aðstandenda heimilismanna á Hrafnistu til að minna þá á þagnarskyldu þeirra gesta sem heimsækja heimilin og að ekki sé heimilt að taka myndir af íbúum án leyfis.
Var það gert í kjölfarið á máli sem kom upp í sumar þar sem gestur tók upp án heimildar myndband af íbúa heimilisins, sem var honum ótengdur, í óheppilegum aðstæðum og deildi á samfélagsmiðlum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, að þau hafi ekki lent í slíku áður. „Hjúkrunarheimili eru heimili fólks og þar búa fleiri en sá sem tengist þér og þá þarftu að sýna því fólki ákveðna virðingu og tillitssemi og virða friðhelgi einkalífsins,“ segir Pétur.