„Það þarf mikla hugarfarsbreytingu, mér finnst margir svo sofandi fyrir þessu,“ segir fjölmiðlakonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir í samtali við mbl.is. Sigrún hefur lengi vakið athygli á slæmum áhrifum plasts á náttúru og lífríki og hefur hvatt fólk í kringum sig til að takmarka plastnotkun og endurvinna.
„Það þótti lengi bara frekar hallærislegt að hafa áhyggjur af þessu og áhuga á að breyta þessu eitthvað en það hefur sem betur fer breyst mikið,“ segir Sigrún. Hún fagnar því að í september verði efnt til sérstaks átaks gegn plastnotkun en á föstudaginn hefst formlega átaksverkefnið Plastlaus september.
„Ég var bara verulega upp með mér þegar ég sá að afmælismánuðurinn hafi verið eyrnamerktur þessu og þótti það mjög vel við hæfi,“ segir Sigrún létt í bragði en sjálf á hún einmitt afmæli í september. Aðspurð kveðst hún með góðri samvisku geta sagt að henni hafi tekist að vekja marga til umhugsunar um skaðsemi plasts.
Sjálf fer hún til að mynda aldrei með plastpoka í búðina, notar ekki plastfilmu til að pakka inn matarafgöngum, kaupir helst ekki plastleikföng handa börnunum sínum, reynir eftir fremsta megni að kaupa umbúðalausar matvörur þegar það er í boði og segir algjörlega fráleitt að kaupa vatn í flöskum. Þá notaði hún taubleyjur á börnin sín og segir það vera mun minna vesen en margir halda.
„Það er náttúrlega alltaf hægt að gera betur og stundum er dálítið erfitt að forðast þetta alveg,“ segir Sigrún. Margir mikli fyrir sér einfaldar leiðir til að draga úr plastnotkun og gefur Sigrún lítið fyrir slíkar afsakanir.
„Margir segja að þeir geti bara ekki munað eftir að fara með pokann í búðina en mér hefur alltaf þótt það dálítið ódýr afsökun af því að þetta sama fólk man alveg eftir að taka veskið með í búðina. Þetta er bara spurning um að stilla sig inn á eitthvað, ég hugsa að þetta sé nú meira metnaðarleysi heldur en einhver gleymska,“ segir Sigrún.
Viðurkennir hún þó að sjálf geti hún gert enn betur auk þess sem stjórnvöld, fyrirtæki og verslunareigendur ættu að leggja sitt af mörkum.
„Mann langar alltaf að undirstrika hvað þetta skiptir miklu máli og hvað við eigum langt í land. Það er takmarkað sem einstaklingar geta gert. Ef þetta er þannig að maður þarf að keyra á tíu staði til að reyna að kaupa umbúðalausar vörur þá er maður náttúrulega farinn að eyða bensíni í staðinn. Eins hefði ég gaman af því að sjá íslenska grænmetisbændur leggja metnað sinn í að pakka ekki öllu dótinu sínu eins og það sé að fara langleiðina út í geim en ekki bara í næstu búð,“ segir Sigrún að lokum.