Hvað segja sauðfjárbændur um stöðuna?

Bændur mæta til fundarins í gær.
Bændur mæta til fundarins í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sauðfjárbændur telja íslenska lambakjötið eiga mikið inni á innlendum markaði, að því er fram kom í máli þeirra sem kvöddu sér hljóðs á fjölmennum fundi bænda í félagheimilinu á Blönduósi í gærkvöldi. Fundurinn hófst upp úr klukkan átta í gær og stóð yfir í rúmlega fjóra tíma. 

Rætt var um stöðuna sem upp er komin eftir að sláturleyfishafar skáru niður greiðslur til sauðfjárbænda um 35 prósent vegna lægra afurðaverðs á mörkuðum. Bændur hafa þungar áhyggjur af stöðunni sem komin er upp. 

Staða sölu- og markaðsstarfs í grein­inni var mikið til umræðu og mátti greini­lega heyra á bænd­um að þeir eru ósátt­ir við hvernig lamba­kjötið hef­ur orðið und­ir í sam­keppni við aðrar teg­und­ir mat­væla, svo sem við ali­fugla- og svína­kjöt.

Bentu fund­ar­menn á að yngri kyn­slóðir neyti annarra teg­unda í vax­andi mæli á kostnað kinda­kjöts, sem þeir telja að megi rekja til þess að fólk eyðir minni tíma við elda­mennsku en áður. Spurðu fund­ar­menn í því sam­bandi hvers vegna súpu­kjötið sé ekki selt í smærri og neyt­enda­vænni pakkn­ing­um til þess að höfða til venju­legra fjöl­skyldna sem hafi ým­ist ekki geymslupláss fyr­ir stór­ar pakkn­ing­ar eða hrein­lega ekki áhuga á slík­um pakkn­ing­um sök­um breyttr­ar neyslu­hegðunar.

Eins beindu fund­ar­menn spjót­um sín­um að markaðssetn­ingu ís­lenska lamba­kjöts­ins. Of mik­illi orku hafi verið eytt í markaðssetn­ingu á erfiðum er­lend­um mörkuðum á sama tíma og ekki hafi nægi­lega mikið verið gert til að ná til er­lendra ferðamanna á Íslandi. For­svars­menn Lands­sam­taka sauðfjár­bænda og Andrés fyr­ir hönd slát­ur­leyf­is­hafa sögðu mikið púður hafa verið sett í markaðs­setn­ingu lamba­kjöts inn á inn­lenda markaði ætlaða til ferðamanna, svo sem veit­inga­húsa, og tóku ábend­ing­arn­ar til greina. Eins bentu þeir á að mikið hafi verið gert til þess að færa lamba­kjötið í neyt­enda­vænni pakkn­ing­ar, með marín­eruðu kjöti til­búið á pönnu eða grill.

„Við ætlum ekkert að gefast upp, við ætlum að þrauka þetta“

Karen Helga Steinsdóttir og Jón Helgi Sigurgeirsson eru 22 ára …
Karen Helga Steinsdóttir og Jón Helgi Sigurgeirsson eru 22 ára og tóku við búinu á síðasta ári. Þau ætla ekki að leggja árar í bát þrátt fyrir að á móti blási. Eggert Jóhannesson

Karen Helga Steinsdóttir og Jón Helgi Sigurgeirsson eru 22 ára og tóku við búi á Víkur á Skaga á síðasta ári og eru með rúmlega 400 rollur. Þau eiga von á barni í desember.

Spurð hvernig staðan horfi við þeim segjast þau þurfa að bæta við sig aukavinnu. Þau vinna bæði í verktöku núna yfir sumartímann en Jón Helgi vinnur á vélaverkstæði Kaupfélags Skagfirðinga yfir veturinn.

„Eðlilega verður þetta erfitt, þetta er tekjubrestur,“ segir Jón Helgi. „Við ætlum ekkert að gefast upp, við ætlum að þrauka þetta,“ bætir Karen við.

Jón segir að ljósi punkturinn í stöðunni sé að nóga atvinnu sé að fá, og þau vinni eðlilega mikið með búi en nú þurfi einfaldlega að bæta við sig meiri vinnu. „Á þessum tímum er það nauðsynlegt,“ segir hann. „Við verðum að sjá hvort það sé ekki hægt að vinna sig út úr stöðunni.“

Spurð hvert hljóðið sé í öðrum ungum bændum segja þau stöðuna eins misjafna og dæmin séu mörg. „Það er misjafnt hvernig menn standa skuldalega og annað,“ segir Jón. Þau vita ekki dæmi þess að fólk hafi brugðið búi vegna stöðunnar. Spurð hvort mikið sé af ungu fólki í sveitinni í kring um þau segja þau svo ekki vera. „Kannski ekki í okkar sveit, þar er meira fullorðið fólk.“

„Fólk getur hvorki verið eða farið“

Jóhannes Guðmundur Þorbergsson frá Neðri-Gnúpi í Vestur-Húnavatnssýslu.
Jóhannes Guðmundur Þorbergsson frá Neðri-Gnúpi í Vestur-Húnavatnssýslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er nú eiginlega hobbýbóndi, kominn á eftirlaun og má engar tekjur hafa. Þetta er að fjara út,“ segir Jóhannes Guðmundur Þorbergsson frá Neðri-Gnúpi í Vestur-Húnavatnssýslu. Sauðfjárbúskapur var hans ævistarf ásamt því sem hann vann við slátrun í 30 haust meira og minna. „Það hefur alltaf verið barningur í þessum blessaða landbúnaði,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir fundinn í gærkvöldi.

„Ef þetta fer eftir eins og þetta er núna, og verð lækkar um 35 prósent til viðbótar við tíu prósent í fyrra og hittífyrra hækkaði ekkert á milli ára, sem er í raun lækkun. Þá tel ég þetta vonlaust, alla vega fyrir fólk sem er nýlega byrjað í búskap og með skuldir á bakinu,“ segir Jóhannes.

Spurður hvort fundurinn hafi gefið einhver fyrirheit segir hann svo ekki vera. „Hann gaf engin fyrirheit frekar en aðrir bændafundir. Sláturleyfishafar segja; Við borgum bara þetta, og við þurfum bara að una því hvort sem okkur líkar betur eða ver. Þetta hefur verið í gegnum tíðina svona, ef ég segi alveg eins og er.“

„Hefðu menn farið að hugsa betur um innanlandsmarkaðinn aðeins fyrr held ég að staðan væri ekki svona slæm í dag. Neysla á lambakjöti hefur minnkað gríðarlega hjá yngra fólki aðallega vegna þess að það er að vinna til fjögur, fimm, hálfsex og kemur þreytt úr vinnunni. Það gefur sér ekki tíma til að fara að elda í einn og hálfan, tvo tíma. Lambakjöt þarf að vera fljótlegt að matbúa svo fólk þurfi ekki að standa yfir þessu í marga tíma, þar hafa svín og alifuglar verið langt á undan okkur,“ segir hann.

Spurður hvort hann telji einhverja bændur bregða búi vegna núverandi ástands. „Það er erfitt. Bændur eru með jarðir fullveðsettar og annað þvíumlíkt. Ekkert auðvelt að losna við þær. Fólk getur hvorki verið eða farið.“

Sláturtíðin hafin og því erfitt að fara í harðar aðgerðir núna

Strandamennirnir Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum (t.v.) og Guðbrandur Sverrisson á …
Strandamennirnir Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum (t.v.) og Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum (t.h.). mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er engin lausn góð í þessari stöðu,“ sögðu Strandamennirnir Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum og Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum eftir fundinn í gærkvöldi. 

„Það verður að bregðast strax við þeirri tekjuskerðingu sem sauðfjárbændur verða fyrir nú í haust,“ segir Guðbrandur Björnsson. „Í öðru lagi verður að skapa ásættanlegt umhverfi fyrir þá sem vilja minnka við sig og eða hætta búskap. Það er ljóst að það verður að grípa til aðgerða sem hlýtur að vera hlutverk ríkisins vegna þeirrar stöðu sem greinin er í. Framhaldið verður að finna varanlega lausn með samkomulagi ríkis og bænda þannig að bændur geti gert sér grein fyrir rekstrargrundvelli búa sinna,“ segir hann.

„Maður er hræddastur um unga fólkið sem þarf að sjá fyrir fjölskyldu,“ segir Guðbrandur Sverrisson. „Við gömlu sem skuldum ekki neitt og höfum bara fyrir einni kellingu að sjá, við skrimtum,“ bætir hann við léttur í bragði. 

Þeir segja að sláturtíðin sé þegar hafin og því sé erfitt að fara út í harðar aðgerðir á þessum tímapunkti sem skapa verulegan niðurskurð í landinu. Þá segja þeir bændur vera búna að fjárfesta í öllu upp á næsta ár og því seint í rassinn gripið fyrir bændur að bregða búi núna í ljósi stöðunnar sem nú er uppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka