„Þetta var agaleg sprenging“

Sunna Mjöll Bjarnadóttir vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið, …
Sunna Mjöll Bjarnadóttir vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið, þegar flaska með Floridana-safa sprakk með látum í bílnum hennar. Samsett mynd

„Það munaði mjög litlu að ég keyrði út af. Þetta var agaleg sprenging,“ segir Sunna Mjöll Bjarnadóttir þroskaþjálfi. Hún varð fyrir því þann 18. ágúst síðastliðinn að flaska með Floridana heilsusafa sprakk með látum í bílnum hennar.

Sunna, sem er frá Tjörnesi, var að keyra í Ljósavatnsskarði, með þriggja mánaða barn sitt í aftursætinu, þegar hún heyrði að sögn gríðarlegan hvell. Hún hélt fyrst að rúða hefði sprungið í bílnum en varð þess svo vör að hún var útötuð í ávaxtasafa. Sunnu brá að sögn verulega og mátti hafa sig alla við að halda bílnum á veginum. Hún segir barnið hafa grátið sáran.

Tveir orðið fyrir augnskaða

Stöð 2 sagði í gærkvöldi frá tveimur tilvikum sem orðið hafa á síðustu dögum þar sem fólk hefur orðið fyrir alvarlegum augnskaða við að opna flöskur af Floridana safa.

Ölgerðin brást við með því að innkalla Floridana ávaxtasafa í flöskum. „Við erum að velta við öllum steinum. Það er her manns hér að vinna í því að finna orsökina,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, um þau alvarlegu tilvik sem orðið hafa. Til þessa hafi ekkert mynstur fundist sem skýrt getur þau tilvik sem upp hafa komið.

„Ég vil bara ítreka á þessum tímapunkti að þetta er kælivara og hana verður að geyma í kæli,“ segir Andri Þór við mbl.is. Um sé að ræða ferskvöru og að yfirþrýstingur geti myndast í flöskunni ef hún er ekki geymd í kæli. Aldrei sé hægt að útiloka tilfelli þar sem yfirþrýstingur myndist en fyrirtækið leiti nú allra leiða til að fyrirbyggja frekari óhöpp. „Mesta hættan er eftir að tekið hefur verið af flöskunni og hún geymd við stofuhita,“ segir hann.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. mbl.is/Golli

Fékk útbrot eftir safann

Sunna Mjöll segir við mbl.is að flaskan hafi verið í kæli en hún hafi tekið hana með sér í bílinn þegar hún lagði af stað. Hún hafi verið í bílnum í um 45 mínútur áður en hún sprakk. Þeim varð ekki meint af sprengingunni en Sunna segir að flaskan hafi gersamlega splundrast – svo öflug hafi sprengingin verið. „Ég fékk rauða flekki á bringu og hendur, þar sem safinn komst í snertingu við húð. En þeir fóru eftir tvo daga.“ Hún segir að skermurinn á barnastólnum hafi varið barnið fyrir flöskubrotunum en að safinn hafi farið yfir barnið og allan bílinn, allt frá framrúðu til farangursgeymslu.

Hún segir að Ölgerðin hafi greitt fyrir þrif á bílnum enda hafi þurft að djúphreinsa hann allan. Hún hafi þó þurft að standa straum af kostnaði við að keyra heiman frá sér inn á Akureyri , sem er ríflega klukkutíma akstur hvora leið. Við djúphreinsun hafi tekist að ná lyktinni úr bílnum. „Þetta var lykt eins og af úldnu áfengi,“ segir hún.

„Maður finnur strax hvort hún er hörð“

„Við munum meta hvert atvik fyrir sig,“ segir Andri Þór spurður um bótarétt þeirra sem fyrir tjóni verða. Sem betur fer hafi þeim ekki borist fleiri tilkynningar en þessar tvær um líkamstjón. Hann segir að reglulega komi upp tilvik þar sem flöskurnar springi vegna yfirþrýstings en segir einstakt að fólk verði fyrir líkamstjóni. Hann segir að verið sé að prenta nýjar umbúðir þar sem enn meiri áhersla verður lögð á að um kælivöru sé að ræða. Málin séu litin mjög alvarlegum augum.

Spurður hvernig fólk, sem kann að eiga Floridana-flöskur heimafyrir, geti fullvissað sig um að þær séu í lagi, segir Andri að besta ráðið sé að grípa um flöskurnar og kreista svolítið. „Maður finnur strax hvort hún er hörð eða bólgin. Ef svo er þá þarf að meðhöndla hana af varúð.“

Andri segir að fólki sé velkomið að koma til Ölgerðarinnar og fá Floridana-safa í fernum í staðinn fyrir flöskusafann. Safinn í fernunum sé meðhöndlaður með öðrum hætti og geymist óopnaður í allt að tvö ár við stofuhita. Safinn í flöskunum sé hins vegar ferskvara og hann þurfi að meðhöndla sem slíkan.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði Svavar Þór Sævarsson, sem hlaut augnskaða af því að opna Floridana-flösku að hann hygðist leggja fram kæru. Andri Þór staðfestir að kæra hafi borist Ölgerðinni nú í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert