Gagnrýna framsetningu kjötsins

Áætlað er að offramleiðsla á lambakjöti í haust verði um …
Áætlað er að offramleiðsla á lambakjöti í haust verði um 2.000 tonn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Heidi Laubert Andersen, bóndi í Örnólfsdal, segir í samtali við Morgunblaðið að íslenskur markaður hafi verið vanræktur hvað markaðssetningu lambakjöts varðar.

Hún telur að hægt væri að auka söluna á lambakjöti hérlendis með framsetningu sem höfði betur til neytenda og segir hundamat betur upprunamerktan en frosið súpukjöt í glærum plastpokum.

Ágúst Andrésson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa, segir að gagnrýni sem þessi gefi til kynna að bændur hafi ekki rétta mynd af stöðu mála.

„Það sem bændurnir festast svolítið í er að horfa á einhverjar frystikistur í búðunum sem eru að selja frosin lambalæri og súpukjöt í pokum. Það er verið að gagnrýna það fyrst og fremst,“ segir Ágúst og bendir á að sölutölur úr verslunum Krónunnar sýni að einungis 5% heildarsölunnar séu frosið lambakjöt.

Viðbrögð ráðherra dapurleg

„Það hefur orðið gríðarleg þróun á undanförnum árum; úr því að selja meirihluta af öllu lambakjöti frosinn yfir í að selja ferskt kjöt.“

Sláturleyfishafar hafa talað fyrir því að útflutningsskylda verði tekin upp að nýju, við litlar undirtektir stjórnvalda.

„Sú sem ræður í þessum málaflokki hefur ekki verið til í það og það finnst mér dapurlegt,“ segir Ágúst og vísar þar til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra, sem hefur sagst vera mótfallin svo viðamiklu markaðsinngripi og vill frekar horfa á hinn enda vandans; að draga úr framleiðslunni.

Í umfjöllun um vanda sauðfjárbænda í Morgunblaðinu í dag segir Atli Már Traustason, bóndi á Syðri-Hofdölum í Skagafirði, bændur finna fyrir pressu frá sláturleyfishöfum um að koma lömbum sem fyrst í sláturhús. Laufskálarétt í Skagafirði hefur verið flýtt og verður um helgina, þar sem ögn betra verð fæst fyrir lömbin fyrstu vikuna í septembermánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka