Húsin of há og höfundur loftdreifispár á huldu

Verksmiðja United Silicon í Helguvík.
Verksmiðja United Silicon í Helguvík. Rax / Ragnar Axelsson

Dönsk verkfræðistofa sem í umhverfismati kísilvers United Silicon var sögð hafa gert loftdreifingarspá fyrir verksmiðjuna bað Skipulagsstofnun um að fjarlægja nafn sitt úr henni þar sem ekkert benti til þess að hún hefði unnið það. Á þetta féllst stofnunin sem nú er með í athugun að endurskoða umhverfismatið vegna fjölda frávika sem komið hafa upp bæði hvað varðar hönnun og fyrirkomulag mannvirkja og einnig loftmengun frá rekstrinum. 

Verksmiðjan í Helguvík var gangsett í nóvember á síðasta ári og hefur rekstur ofns hennar, þess fyrsta af fjórum sem fyrirhugaðir eru, frá byrjun gengið erfiðlega með tilheyrandi lyktarmengun og hundruðum kvartana. Íbúar í Reykjanesbæ hafa ítrekað lýst líkamlegum einkennum, s.s. þurrki og roða í augum og ertingu í öndunarfærum. Enn hefur ekki verið staðfest hvaða efni gætu leynst í loftinu sem valda einkennunum.

Fyrir utan þessi endurteknu frávik frá starfseminni, sem eru að minnsta kosti á þriðja tug að mati Umhverfisstofnunar, hefur Skipulagsstofnun gert athugasemdir við mannvirkin sem hún segir ekki samræmi við það sem kynnt var í matsskýrslu.

Þrettán metra hærra hús en ráð var fyrir gert

Þegar verksmiðjuhús United Silicon hófu að rísa í Helguvík fóru að renna tvær grímur á íbúa Reykjanesbæjar. Áttu þau virkilega að vera svona stór? Svona áberandi?

„Sjónmengun frá kísilverksmiðjunni i Helguvík verður mjög lítil þar sem flest hærri mannvirki verksmiðjunnar verða byggð á neðra svæði lóðarinnar. Verksmiðjan mun varla verða sjáanleg frá Keflavík …“ segir m.a. í matsskýrslunni. Í henni voru svo birtar afstöðumyndir frá nokkrum sjónarhornum en þær eru ekki í takt við þann raunveruleika sem blasti við er byggingarnar höfðu risið.

Verksmiðjan séð frá Garðskagavegi. Á efri myndinni má sjá verksmiðjuna …
Verksmiðjan séð frá Garðskagavegi. Á efri myndinni má sjá verksmiðjuna í dag og á neðri myndinni eins og hún var sett inn í matsskýrsluna. Samsett mynd/mbl.is

Þegar farið var að grafast fyrir um málið kom í ljós að hluti verksmiðjuhúsanna er 13 metrum hærri en matsskýrsla frá árinu 2013 og deiliskipulag svæðisins gerði upprunalega ráð fyrir. Aðrir hlutar voru allt að átta metrum hærri. Mannleg mistök eru sögð hafa orðið til þess að teikningar sem verksmiðjuhúsin voru svo byggð eftir voru stimplaðar og þar með samþykktar hjá starfsmanni Reykjanesbæjar. Svo virðist sem þær séu miðaðar við drög að deiliskipulagi sem hafði á síðari stigum verið breytt. Kísilver United Silicon var því byggt eftir teikningu sem var ekki í takt við það sem fram kom í matsskýrslunni sem hafði verið kynnt almenningi.

Skipulagsstofnun gerði athugasemd við þetta í upphafi árs og fékk þau svör frá Reykjanesbæ að mannvirkin væru í samræmi við gildandi deiliskipulag sem hafði verið breytt árið 2015. Á það féllst Skipulagsstofnun ekki og vísaði m.a. í svarbréfi sínu til fréttaflutnings þar sem bærinn viðurkenndi að hluti mannvirkjanna væri ekki í samræmi við skipulagið. Stofnunin áréttaði að byggingar á hluta lóðarinnar væru ekki í samræmi við það sem kynnt var í matsskýrslunni, hvorki hvað varðaði umfang, gerð eða ásýnd. 

Skipulagsstofnun minnti Reykjanesbæ á þá skyldu samkvæmt lögum að ganga úr skugga um að framkvæmdir séu bæði í samræmi við þau gögn sem álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum byggir á og gildandi skipulagsáætlanir. „Stofnunin fær ekki annað séð en að sveitarfélagið hafi vanrækt þessa skyldu og gefið út leyfi sem uppfylla ekki skilyrði framangreindra laga. Það er ámælisvert.“

Skipulagsstofnun hefur hins vegar engin lagaleg úrræði til að bregðast frekar við málum af þessu tagi. Niðurstaðan var sú að húsin risu og voru hærri en kynnt hafði verið fyrir íbúum.

Umhverfismat mögulega endurskoðað

Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum United Silicon, sem staðfest var með áliti Skipulagsstofnunar í maí 2013, var ekki fjallað um frávik í rekstri eða sett fram viðbragðsáætlun vegna þeirra. Í ljósi vandamála sem komið hafa upp hefur Skipulagsstofnun tilkynnt fyrirtækinu að því beri að leggja fram erindi þar sem gerð er grein fyrir frávikunum. Í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvort endurskoða þurfi umhverfismatið. Endurskoðað umhverfismat gæti leitt til þess að endurskoða þurfi starfsleyfi verksmiðjunnar, að því er fram kemur í skriflegu svari Ásdísar Hlakkar Theodórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar, við spurningum mbl.is.

Í bréfi Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar í mars á þessu ári var vakin athygli á „ýmsum annmörkum“ á matsskýrslu United Silicon. „Það sem fyrst ber að benda á er að allt matið og öll losun mengunarefna miðast við að rekstur verkmiðjunnar gangi eins og best verður á kosið,“ segir í bréfinu. Við þær aðstæður er ofninn keyrður á kjörhita sem tryggir að lítið sem ekkert myndast af þeim snefilefnum sem nú er verið að skoða hvort séu að valda lyktarmengun og  líkamlegum einkennum hjá íbúum Reykjanesbæjar.

Ekki var gert ráð fyrir að mæla flest þeirra efna sem geta myndast ef hitastig ofnsins er of lágt „enda ekki gert ráð fyrir því í upphafi, hvorki í mati á umhverfisáhrifum né við starfsleyfisvinnslu, að þessi efni væru að myndast í mælanlegum styrk,“ segir m.a. í bréfi Umhverfisstofnunar.

Þá hefur stofnunin bent á að ekki hafi verið fjallað um lyktarmengun í mati á umhverfisáhrifum og hefur minnt á að ólykt teljist til mengunar samkvæmt skilgreiningu í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Verksmiðjan séð frá Innri-Njarðvík. Á eftir myndinni má sjá verksmiðjuna …
Verksmiðjan séð frá Innri-Njarðvík. Á eftir myndinni má sjá verksmiðjuna í dag og á neðri myndinni eins og hún var sett inn í matsskýrsluna. Samsett mynd/mbl.is

Ekki gert ráð fyrir mengunarslysum

Ásdís Hlökk segir í svari sínu að ekki hafi komið fram ábendingar í umhverfismatsferlinu, svo sem frá leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, um að þörf væri á sérstakri umfjöllun í matsskýrslunni um frávik af því eðli og stærðargráðu sem reynst hafa viðvarandi í rekstri verksmiðju United Silicon. Efnistök og nálgun í umhverfismati United Silicon hafi verið sambærileg hvað þetta varðar við það sem hefur verið í umhverfismati fyrir annan verksmiðjurekstur í málmiðnaði.

Í umsögn Umhverfisstofnunar um tillögu að matsáætlun vegna kísilvers United Silicon sagði þó: „Umhverfisstofnun telur að í frummatsskýrslunni ætti einnig að vera umfjöllun um viðbragðsáætlanir vegna mengunarslysa eða óhappa, bæði á framkvæmdar- og rekstartíma verksmiðjunnar.“

Almennt er í mati á umhverfisáhrifum ekki fjallað um annars konar frávik frá starfsemi nema vegna náttúruvár eða slysa eins og t.d. bruna, óhappa við flutning og þess háttar. Í svari Skipulagsstofnunar við spurningum mbl.is segir að vandséð sé hvernig væri unnt að fjalla um ófyrirséð vandamál við gangsetningu og rekstur. „Þess vegna er nauðsynlegt að í starfsleyfi séu ákvæði til að bregðast við því óvænta, þ.e. að forsenda sé til að endurskoða starfsleyfi ef mengun af völdum rekstrarins er meiri en búast mátti við þegar starfsleyfið var gefið út eða ef vart verður mengunar sem ekki var gert ráð fyrir við útgáfu leyfisins.“

Skipulagsstofnun gaf út álit í maí 2013 um mat á umhverfisáhrifum verksmiðju United Silicon sem er lokahnykkur umhverfisferlisins og undanfari þess að framkvæmdaraðili geti sótt um tilskilin leyfi til framkvæmda og rekstrar. Þann 3. júlí 2014 veitti Umhverfisstofnun Stakksbraut 9 ehf. starfsleyfi fyrir starfseminni. Það leyfi var svo fært yfir á Sameinað Sílikon hf. í september árið 2015.

COWI kannast ekki við spána

Í febrúar 2015, nær tveimur árum eftir að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir, barst stofnuninni erindi frá verkfræðistofunni COWI þar sem fram kom að athygli COWI hafi verið vakin á að í matsskýrslu United Silicon sé loftdreifingarspá (minnisblað) auðkennd með nafni og merki stofunnar. Í skjalavistunarkerfi fyrirtækisins finnist hins vegar ekkert sem bendi til þess að spáin hafi verið unnin af COWI. Í ljósi þessa óskaði COWI eftir því að minnisblaðið yrði fjarlægt af vef Skipulagsstofnunar eða nafn og merki fyrirtækisins fjarlægt úr skjalinu.

Á þessum tíma var mat á umhverfisáhrifum kísilvers Thorsil í Helguvík til umfjöllunar sem og samlegðaráhrif kísilveranna tveggja og álvers Norðuráls. Skipulagsstofnun óskaði því eftir sérfræðiáliti Sigurðar Magnúsar Garðarssonar, prófessors við Háskóla Íslands. Álitið byggði á loftdreifingarskýrslum sem lágu til grundvallar umhverfismati fyrirtækjanna þriggja ásamt frekari upplýsingum sem Skipulagsstofnun aflaði frá United Silicon og Thorsil um loftdreifingarspár.

Á efri myndinni má sjá verksmiðjuna í dag, en á …
Á efri myndinni má sjá verksmiðjuna í dag, en á neðri myndinni eins og gert var ráð fyrir henni í matsskýrslunni. Samsett mynd/mbl.is

Á grundvelli sérfræðiálits Sigurðar Magnúsar og nýrra upplýsinga frá United Silicon taldi Skipulagsstofnun hafa verið sýnt fram á að að mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda byggðu á áreiðanlegum líkönum og þeim hefði verið beitt á á réttan hátt. Stofnunin taldi því að loftdreifingarspá í matsskýrslu af öðrum aðila en COWI ekki hafa áhrif á matsferli verksmiðjunnar og niðurstöðu þess.

Í ljósi þessa féllst Skipulagsstofnun á að taka út af vef sínum matsskýrslu United Silicon, með minnisblaðinu sem merkt var COWI, og setja þess í stað skýrsluna með sömu upplýsingum, án nafns eða merkis COWI. Í skýrslunni er þó enn kafli þar sem segir: Alþjóðlega verkfræðistofan COWI í Danmörku gerði árið 2008 loftdreifingarlíkan fyrir Helguvíkursvæðið.“

Stofnandi fyrrverandi starfsmaður COWI

Í ítarlegri fréttaskýringu Stundarinnar frá því í ágúst í fyrra kemur fram að Magnús Ólafur Garðarsson, einn stofnenda United Silicon, hafi verið starfsmaður COWI til ársins 2009. Magnús var áður eigandi Icelandic Silicon Corporation, forvera United Silicon, sem lét gera matsskýrslu á fyrirhuguðu kísilveri í Helguvík árið 2008. Þá skýrslu er enn að finna á vef Skipulagsstofnunar og er hún í mörgum atriðum sambærileg þeirri sem liggur nú til grundvallar starfsleyfi United Silicon. Í þessari fyrri skýrslu kemur nafn COWI ítrekað fram, m.a. er þar að finna umrætt minnisblað sem COWI fór síðar fram á að yrði fjarlægt. 

Í viðtali við DV á síðasta ári fullyrti Magnús að COWI hefði gert loftdreifispána. Hana hefði fyrrverandi starfsmaður stofunnar unnið og því undraðist hann bréf COWI til íslenskra skipulagsyfirvalda. 

Forsvarsmenn COWI vildu ekki tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði eftir því og vísuðu á stjórnendur United Silicon og skipulagsyfirvöld á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert