Plastlaus september hófst formlega í dag en um er að ræða árvekniátak sem hleypt er af stokkunum í fyrsta sinn nú í ár en er ætlað að verða árlegt verkefni í framtíðinni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Gríðarlegt magn af einnota plasti fellur til frá almenningi og atvinnulífinu á degi hverjum. Mikið af þessu plasti endar í umhverfinu, í landfyllingum og í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Tilgangur átaksins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og benda á leiðir til að draga úr notkun á plasti, einkum einnota plasti.
Aðstandendur átaksins og samstarfsaðilar hvetja fólk til að taka þátt í Plastlausum september, m.a. með því að skrá sig til leiks á vefsíðu átaksins www.plastlausseptember.is og vona að þátttaka í átakinu veki fólk til meðvitundar um vandann en ekki síður um lausnir. Mikil áhersla verður lögð á að benda á fjölmargar leiðir til að draga úr notkun á plasti og ættu allir að geta tekið þátt með einum eða öðrum hætti. Fyrir suma skiptir máli að geta byrjað með einföldum hætti, til dæmis að sleppa innkaupapokum úr plasti og nota eingöngu margnota poka, en aðrir óska eftir fjölbreyttari lausnum,“ segir í fréttatilkynningu.