Þegar það gerist sem ekki á að geta gerst

Geðdeild Landspítalans.
Geðdeild Landspítalans. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þegar tvö sjálfsvíg gerast á örfáum dögum inni á geðdeild þarf ekki að undra þótt viðbrögðin nái út í allt samfélag okkar. Hvað þarf að gera?, spyr Högni Óskarsson geðlæknir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Högni Óskarsson.
Högni Óskarsson.

„Sjálfsvíg eru alltaf harmleikur, sem hefur djúpstæð áhrif á nærumhverfi viðkomandi og marga aðra. Þegar tvö sjálfsvíg gerast á örfáum dögum inni á virtri meðferðarstofnun þarf ekki að undra þótt viðbrögðin nái út í allt samfélag okkar; í gegnum fréttastofur og samfélagsmiðla. Margar spurningar vakna; um viðbragðsáætlun geðdeilda þegar sjúklingur í sjálfsvígshættu leggst inn, um aðbúnað og öryggi inniliggjandi sjúklinga, mönnun deilda og fleira. Allt er þetta eðlilegt. Sömuleiðis kvíðinn og reiðin; reiðin yfir því að svona geti gerst og kvíðinn þegar traust veikra og aðstandenda þeirra á meðferðarstofnunum bíður hnekki.

Á þessu þarf að taka. Landspítalinn er að setja í gang ítarlega greiningarvinnu, þar sem leitað verður skýringa á hvað gerðist, hvað brást, og leitast er við að læra og endurbæta vinnuferli.

Landlæknisembættið kemur einnig að þessari vinnu. En þetta er ekki nóg. Endurheimta þarf traustið. Það er ljóst að Landspítalinn verður að eiga frumkvæði að því að svara spurningum, sem koma að utan, niðurstöður greiningarvinnunnar eiga að vera aðgengilegar og á mannamáli. Án þess að leita blóraböggla í hópi starfsmanna, svona vandamál eiga alltaf kerfislægar orsakir.

Rétt er að taka fram að sjálfsvíg á geðdeildum gerast alltaf, sama hversu öflug stofnunin kann annars að vera. Þetta á einnig við um aðrar sjúkrahúsdeildir, sem annast mikið veika sjúklinga; ófyrirséð og óvænt tilvik geta alltaf orðið.

Að þessu sögðu ætla ég að fara nokkrum orðum um sjálfsvíg á Íslandi í víðara samhengi. Tíðni sjálfsvíga hér hefur meiri part síðustu aldar og fram á þessa öld verið í lægri kantinum meðal viðmiðunarþjóða á Norðurlöndum, Noregur og Ísland með lægstu tíðnina. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að nokkuð hefur dregið saman með þjóðunum fimm undanfarin 15-20 ár, ekki vegna þess að sjálfsvígstíðni hér hafi aukist, heldur hefur tíðnin dregist saman í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Má þar þakka markvissum forvarnaraðgerðum sem byggjast á fræðslu og heftu aðgengi að leiðum til sjálfsvígs. Unnið hefur líka verið að forvörnum í Noregi og á Íslandi. Má sem dæmi nefna forvarnarverkefnið Þjóð gegn þunglyndi á vegum Landlæknisembættisins, en það hófst með krafti árið 2003, mest með fjárstuðningi einkafyrirtækja en líka með stuðningi ríkissjóðs og sveitarfélaga. Því miður gekk ekki sem skyldi að tryggja varanlegan rekstrargrundvöll fyrir verkefnið og fór að draga úr starfseminni í kringum hrunið 2008.

Hér er enn sem áður mikið verk að vinna. Það þarf að leggja miklu meiri vinnu í að greina áhættuhópa, eins og fíkla sem hafa ánetjast lyfjum og efnum, þar sem stutt bil getur verið milli nautnar og dauða. Má sem dæmi nefna sterk verkjalyf. Þá þarf að gera meðferð við geðröskunum meðal ungra karla enn aðgengilegri. Nú eru að skapast tækifæri til að skapa virkari tengsl milli heilsugæslu og geðlækna og styrkja enn frekar sálfræðiþjónustu þar.

Vonandi verður harmleikurinn sem að ofan er lýst til þess að umræðunni fylgi aðgerðir til lengri tíma til að bæta geðheilbrigðisþjónustu, innan sem utan stofnana,“ skrifar Högni í grein sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert