Á milli tíu og tuttugu starfsmönnum rútufyrirtækisins Kynnisferða var sagt upp um mánaðamótin. Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að hækkandi launakostnaður og aukin gjaldtaka skýri meðal annars þörfina á uppsögnum.
„Þetta skiptist á tvö félög og er þvert á deildir,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.
„Í raun var enginn sérstakur hópur sem var tekinn fyrir, heldur er þetta hluti af stærri hagræðingaraðgerðum sem við höfum verið að vinna í, út af breyttu umhverfi,“ bætir hann við og tekur fram að haft hafi verið samband við verkalýðsfélög starfsmannanna til að veita þeim aðstoð, ef þeir það vildu.
Spurður hvað valdi því að ráðist sé í uppsagnirnar segir Kristján að farið sé að hægja á straumi ferðamanna.
„Gistitíminn er að styttast, launakostnaður hefur hækkað gífurlega mikið og það hefur snert okkur í ferðaþjónustunni undanfarið rúmt ár verð ég að segja, auk þess sem gjaldtaka hefur aukist, þar á meðal núna í flugstöðinni með nýju útboði. Við höfum þurft að laga okkur að þessu breytta umhverfi.“