Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar hefur verulegar áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda og að ekki takist að bæta starfsumhverfi greinarinnar. Félagið segir að fjöldi starfa sé í hættu. Framsýn skorar á forystumenn sauðfjárbænda, sláturleyfishafa og ráðamenn þjóðarinnar að vinna markvisst að lausn mála.
Þetta kemur fram í ályktun sem félagið samþykkti í morgun.
Þar segir, að félagið lýsi yfir þungum áhyggjum af þeim mikla vanda sem steðji að sauðfjárrækt á Íslandi, enda ljóst að mikil lækkun afurðaverðs til sauðfjárbænda komi sér afar illa við greinina og ýtir undir frekari byggðaröskun en orðið sé.
Félagið bendir á, að mikil tekjuskerðing til bænda síðustu árin geri það að verkum að ekkert standi eftir til að greiða launakostnað eftir að framleiðslukostnaður hafi verið greiddur. Verði boðaðar verðlækkanir á afurðaverði og hækkandi sláturkostnaður til sauðfjárbænda að veruleika í haust er rekstrargrundvöllur margra sauðfjárbúa brostinn.
„Sauðfjárrækt er ein af grunnstoðum byggðar í Þingeyjarsýslum líkt og í flestum öðrum dreifbýlissveitarfélögum landsins, margir byggja afkomu sína á sauðfjárrækt, bæði sem bændur og/eða við önnur afleidd störf tengd landbúnaði.
Hverfi sauðfjárrækt úr sveitum landsins munu fleiri störf fylgja með þar sem margir hafa afkomu sína af vinnu við afurðarstöðvar og ýmis konar þjónustu við bændur, þau störf munu einnig hverfa. Hrun í greininni snýst því ekki eingöngu um tekjulækkun til bænda heldur er fjöldi starfa í hættu, samfélagið allt er undir.
Framsýn skorar á forystumenn sauðfjárbænda, sláturleyfishafa og ráðamenn þjóðarinnar að vinna markvisst að lausn mála með það að markmiði að leysa þennan grafalvarlega vanda sem blasir við þjóðinni allri,“ segir í ályktuninni.