„Hún er farin að greina miklu meira en hún gerði. Bæði bólga og mar er í rénun,“ segir Oddný Sigrún Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur. Dóttir hennar varð fyrir því í síðustu viku að fá tappa af Floridana-safa af miklu afli í augað. Við það missti hún sjónina, í það minnsta tímabundið.
Oddný segir að þó dóttir hennar, sem er 18 ára, sé á batavegi nú sé alls ekki ljóst hvort hún nái sér að fullu. „Læknarnir tala enn um að gerð. Hún er ekki sloppin,“ segir hún.
Tvö alvarleg tilvik komu upp í síðustu viku þar sem fólk varð fyrir augnskaða við að opna Floridana-safa í plastflöskum. Mikill þrýstingur hafði byggst upp í flöskunni, í báðum tilvikum, þannig að tappinn skaust í augað, þegar um hann losnaði.
„Höggið er það þungt sem tappinn gefur að í dag fjórum dögum eftir slysið þá sér hún ekki neitt,“ sagði Oddný við stöð tvö þann 31. ágúst, fjórum dögum eftir slysið.
Oddný segir í samtali við mbl.is að þau hafi fylgt ráðum lækna í hvívetna eftir óhappið, svo sem að höfuðstaðan í rúminu sé rétt. „Það skiptir miklu máli hvernig hún fer með sjálfa sig eftir þetta slys,“ segir Oddný.
Hún segir að framfarirnar hafi verið góðar allra síðustu daga en á föstudaginn hafi hún ekki séð neitt. „Hún skynjaði hreyfingu ef hendi var veifað fyrir framan hana en nú er hún farin að sjá betur. Það blæddi bæði inn á fremra og innra hólfið í auganu.“
Oddný segist hafa verið þakklát Ölgerðinni fyrir að bregðast strax við málinu en segist ekki hafa verið ánægð með Ölgerðin sendi frá sér í kjölfarið. Þar hafi ekki verið nógu fast að orði kveðið.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að í prentun væru nýjar merkingar á flöskurnar, þar sem skýrara væri tekið fram að um kælivöru væri að ræða.
Oddný segist eiga bágt með að trúa því að Ölgerðin ætli að notast við sömu umbúðir áfram. Hún þekki sjálf fólk sem varð fyrir því að flaskan sprakk rétt eftir að hafa verið tekin út úr kæli. „Þetta eru stórhættulegar umbúðir.“
Aðspurð segir hún að engin ákvörðun hafi verið tekin um að freista þess að sækja bætur vegna málsins. Öll áhersla sé nú á að dóttir hennar, sem missir nú marga daga úr skóla, nái sér. „Hún er í fullu námi í Verslunarskólanum og það er mikið rothögg að vera kippt svona út úr því.“