„Höfum enn áhyggjur af rót vandans“

Bændur sem bregða búi strax fá greiðslur í fimm ár.
Bændur sem bregða búi strax fá greiðslur í fimm ár. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta eru spor í rétta átt en við höfum enn áhyggjur af rót vandans,“ segir Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra birti fyrr í dag tillögur sem stjórnvöld hyggjast grípa til með það að markmiði að fækka sauðfé í landinu um 20%.

Á meðal þess sem lagt er til er að greiða bændum sem bregða búi strax 90% af greiðslum fyrir innlegg samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár. Þeir sem hætta á næsta ári fá 70% af greiðslum næstu þrjú árin.

Unnsteinn segir að margt af því sem sé að finna í tillögum ráðherra séu aðgerðir sem komi til með að skipta bændur máli. Hann segir ljóst að stéttin þurfi að ná þeim markmiðum að fækka sauðfé í landinu um 20%. Um það séu allir sammála. „En við lögðum meiri áherslu á að hafa hvata til að fækka fé heldur en að hætta búskap,“ segir Unnsteinn við mbl.is.

Fjallið enn til staðar

Hann segir að það sem upp á tillögurnar vanti helst sé að bregðast við uppsöfnuðum birgðavanda, kjötfjallinu svokallaða. Hann verði enn stærri að lokinni þessari sláturtíð, þegar búið verður að fella enn meira fé en venjulega.

Hann segir að bændur hefðu viljað vettvang til að leysa þau mál sjálfir, svo sem með tímabundinni útflutningsskyldu. Hann viðurkennir aðspurður að vissulega hefði líklega orðið tap á þeim útflutningi en það væri þó til þess fallið að leysa birgðavandann.

Skammur tími til stórra ákvarðana

Unnsteinn segir að hann hefði viljað fá þessar tillögur fram nokkrum mánuðum fyrr. Forsvarsmenn sauðfjárbænda hafi talað fyrir aðgerðum síðan í mars eða apríl. Nú sé sláturtíð að hefjast og menn hafi lítinn tíma til að gera upp hug sinn. Menn séu auk þess búnir að leggja út mikinn kostnað vegna fjár sem slátrað verður 2018. „Við erum búnir að tala um þetta mál í fimm mánuði. Það var ástæða fyrir því að við fórum að ræða þetta í mars eða apríl.“

Hann segir þó að aðgerðirnar séu skref í rétta átt en áfram þurfi að vinna að lausn vanda sauðfjárbænda. Vinnan endi ekki hér. „Þetta eru ekki endanlegar aðgerðir. Það þarf að halda áfram að vinna að lausn til frambúðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka