Rannsaka hljóðupptökuna

Júlíus Vífill Ingvarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson mbl.is/Rax

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara grunaður um stórfelld skattsvik og peningaþvætti. Þetta staðfestir embættið við mbl.is. Lögmaður hans Sigurður G. Guðjónsson má ekki vera verjandi hans í málinu því héraðssaksóknari hyggst kalla Sigurð til skýrslugjafar í fyrrgreindu máli. Á fimmtudaginn féll dómur í hæstarétti þar sem úrskurður héraðsdóms um að meina Sigurði að taka að sér málsvörn Júlíusar er staðfestur. 

Ekki er útilokað að Sigurður fái stöðu sakbornings í málinu. Ástæðan er sú að hljóðupptaka af fundi Sigurðar og Júlíusar við deiluaðila þar sem þeir ræða um meinta fjármuni sem Júlíus er grunaður um að skjóta undan skatti og er til rannsóknar hjá embættinu. Fjármunina mun Júlíus hafa átt á erlendum bankareikningum frá árinu 2005 og er grunaður um að hafa skotið undan skattayfirvöldum árin 2010 til 2015 í gegnum aflandsfélag í Panama.

Hljóðupptaka af fundi Sigurðar og Júlíusar við deiluaðila þar sem þeir ræða um meinta fjármuni barst 27. mars 2017 nafnlaust inn á borð embættis héraðssaksóknara. Mbl.is hefur öruggar heimildir fyrir því að tilurð og dreifing umræddrar upptöku sé í rannsókn hjá embættinu. Rannsókninni er einkum beint að því hvort einn lögmaður eigi sök eða aðild að dreifingu upptökunnar.

Í dóminum mótmælir Júlíus þeirri niðurstöðu héraðssaksóknara og telur ekki þörf á að taka skýrslu af Sigurði vegna málsins, enda hafi hann ekki veitt neina lögfræðiráðgjöf á árabilinu 2010 til 2015 þegar meint skattalagabrot áttu að hafa verið framin. Ekki hafi þess heldur verið getið hvaða brot Sigurður eigi hugsanlega að hafa gerst sekur um. Þessu er héraðssaksóknari ekki sammála.

Hins vegar segir í dómi héraðsdóms að ekki verður „betur séð en að lögmaður sóknaraðila hafi á fundinum fyrst og fremst lagt áherslu á að skoða þyrfti ofan í kjölinn hvernig best væri að standa að slíkri millifærslu í skattalegu tilliti. Af endurritinu má ráða að með þessari áherslu hafi lögmaðurinn verið að gæta með réttmætum hætti hagsmuna sóknaraðila með sem bestu móti, eins og honum var skylt sbr. 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert