Nýtt fólk ráðið til United Silicon

United Silicon.
United Silicon. mbl.is/Rax

United Silicon hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna heimildar til greiðslustöðvunar fyrirtækisins til 4. desember. Þar kemur fram að Helgi Jóhannesson hrl. hafi verið ráðinn aðstoðarmaður í greiðslustöðvun og hefur Héraðsdómur Reykjaness staðfest þá ráðningu.

„Framlengingunni er ætlað að gera fyrirtækinu kleift að endurskipuleggja rekstur félagsins og hrinda í framkvæmd endurbótaáætlun, sem byggð er á ráðleggingum utanaðkomandi sérfræðinga, með það að markmiði að gera fyrirtækið fjárhaglega og tæknilega rekstrarhæft til lengri tíma litið,“ segir í yfirlýsingunni.

„Stjórn félagsins vinnur nú hörðum höndum að endurskipulagningu rekstrar félagsins í samvinnu við kröfuhafa þess. Fjárhagserfiðleikar félagsins eru fyrst og fremst afleiðing rekstrarerfiðleika í verksmiðju félagsins sem rekja má til endurtekinna bilana í búnaði og valdið hafa félaginu miklu tjóni. Á greiðslustöðvunartíma verður því líka unnið að frekari greiningum á tæknilegum úrlausnarefnum, áætlunum um úrbætur og nauðsynlegum endurbótum. 

Heimsmarkaðsverð á kísilmálmi fer hækkandi og spurn eftir kísilmálmi eykst. Framtíðarhorfur rekstrarins eru því góðar, að því tilskyldu að takist að endurskipuleggja reksturinn og fjármagna nauðsynlegar endurbætur.  

Í bréfi Umhverfisstofnunar (UST) frá 1. september var félaginu tilkynnt um þá niðurstöðu UST að endurræsing ofns verksmiðjunnar sé óheimil nema með skriflegri heimild frá stofnuninni að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim.

Stjórn félagsins tekur alvarlega þá miklu ábyrgð sem fylgir því að reka starfsemi sem þessa og vill gera það í góðri sátt við nærsamfélagið og eftirlitsaðila og í samræmi við ákvæði laga og starfsleyfis. Stjórn félagsins mun á næstu mánuðum vinna að endurskipulagningu rekstrar til að tryggja rekstrarhæfni félagsins til frambúðar. Í því samhengi leggur stjórnin áherslu á að tryggja hagsmuni kröfuhafa félagsins, starfsfólks þess og hag sveitarfélagsins af tekjum af rekstri félagsins. Hluti þess verkefnis er að tryggja félaginu fjármagn til að ráðast í allar nauðsynlegar úrbætur til að bæta rekstur verksmiðju félagsins."

Karen og Kristinn ráðin til starfa

Stjórnin hefur fengið Karen Kjartansdóttur til að sinna hlutverki talsmanns fyrirtækisins næstu mánuði.

„Hún hefur mikla reynslu af fjölmiðlum, var samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á árunum 2013-2016 og hefur á þessu ári unnið á ráðgjafastofunni Aton. Þá hefur stjórnin fengið Kristin Bjarnason hrl. til ráðgjafar fyrir félagið.  Kristinn er einn reyndasti lögmaður landsins í störfum fyrir fyrirtæki í greiðslustöðvun og nauðasamningsumleitunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert