Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur endurráðið Örnu Kristínu Einarsdóttur framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar frá og með 1. september til fjögurra ára. Arna Kristín hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra frá árinu 2013 en áður var hún tónleikastjóri hljómsveitarinnar frá árinu 2007.
Þá starfaði hún sem flautuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og í Bretlandi um árabil. Arna Kristín er með meistaragráðu í menningar- og menntastjórnun frá Háskólanum á Bifröst, einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og háskólagráður í þverflautuleik frá Indiana University í Bloomington í Bandaríkjunum og Royal Northern College of Music í Englandi.
„Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur átt gott og farsælt samstarf við Örnu Kristínu Einarsdóttur síðustu fjögur ár. Arna Kristín er með skýra sýn á stefnu hljómsveitarinnar bæði hvað rekstur og listræn markmið varðar og hefur náð að styrkja stöðu hljómsveitarinnar,“ er haft eftir Sigurbirni Þorkelssyni, stjórnarformanni Sinfóníuhljómsveitarinnar, í tilkynningu.