Upphrópun af hálfu Sjálfstæðismanna

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

„Það voru tvær tillögur nánast um sama efnið,“ segir S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs í samtali við mbl.is. Sjálfstæðismenn voru óánægðir með að tillögu þeirra, um að opinber rannsókn á því milljarða tjóni sem hefur orðið á húsi Orkuveitunnar færi fram, væri vísað til borgarráðs. 

Tillögu Framsóknar og flugvallarvina um að skipa sérstaka úttektarnefnd vegna málsins var vísað samhljóma til borgarráðs. „Sjálfstæðismenn samþykktu að vísa tillögu Framsóknar og flugvallarvina um áþekk mál til borgarráðs,“ segir Björn þegar hann er spurður hvers vegna tillögu Sjálfstæðismanna var vísað til borgarráðs. 

Borgarfulltrúar meirihlutans sögðu að samstaða væri um að fyrsta verk væri að kalla til dómskvaddan matsmann. Björn segir að fyrir liggi þrjár aðferðir og skynsamlegt sé að samræma aðgerðir.

S. Björn Blöndal.
S. Björn Blöndal. LJósmynd/Hari

Eina gagnsemi mistaka er að læra af þeim

„Við þurfum að byrja á því að sjá hvað dómskvaddi matsmaðurinn skoðar. Síðan tökum við það úr hinum tillögunum, bæði það sem er sameiginlegt og það sem stendur út af, og gerum sérstaka úttekt á því. Við erum í raun eingöngu að koma í veg fyrir tvíverknað.

Björn gagnrýnir Sjálfstæðismenn og segir málflutning þeirra popúlisma. „Það vantar ákveðna samfellu í málflutning þar sem greitt er atkvæði gegn því að þeirra tillögu er vísað í borgarráð en á sama tíma er í lagi að vísa tillögu Framsóknar og flugvallarvina í borgarráð. Ég lít á að þetta hafi verið popúlismi og upphrópun, að Sjálfstæðismenn hafi verið að reyna að berja sér á brjóst með þessu.“

Hann segir aðalatriðið að verkið sé framkvæmt á skynsamlegan hátt. „Þannig getur þetta skilað niðurstöðu sem er skýr og við sjáum eins nákvæmlega og mögulegt er hvar og hvernig þetta klúður varð,“ segir Björn og bætir við að hann vilji gjarnan að það verði skýrt hvað fór úrskeiðis svo það sé hægt að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

Eina gagnsemi mistaka er að læra af þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert