Vill fastmótaðri reglur um jarðakaup

Horft heim að Neðri-Dal sem er örskammt frá Geysi í …
Horft heim að Neðri-Dal sem er örskammt frá Geysi í Haukadal. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Dómsmálaráðherra telur rétt að settar verði fastmótaðri reglur en nú gilda um jarðakaup útlendinga hér á landi. Til stendur að ráðherra leggi fram frumvarp þess efnis á kjörtímabilinu.

Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna um reglur um kaup erlendra aðila á jörðum.

Þar segir að á síðasta ári hafi innanríkisráðuneytið sett viðmiðunarreglur við afgreiðslu umsókna útlendinga um kaup á fasteignum.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur áður talað um að þörf sé á því að ná betur utan um heildarumfang erlends eignarhalds á íslenskum bújörðum og að fjölmörg séu rök með því að það eigi ekki að vera sjálfsagt, einfalt og auðsótt að koma og kaupa upp stór lönd á Íslandi.

Mik­il umræða skapaðist um málið eft­ir að upp­lýst var um áhuga kín­verskra fjár­festa á kaup­um á jörðinni Neðri-Dal í Bisk­upstung­um fyr­ir 1,2 millj­arða króna til að reka þar ferðaþjón­ustu

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Í svari Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, kemur einnig fram að í júní hafi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipað starfshóp um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Honum er ætlað að fara yfir þær takmarkanir sem unnt er að mála fyrir um í ákvæðum ábúðar- og jarðalaga og að leggja mat á þær takmarkanir sem er að finna í lögum nágrannalanda Íslands, þar á meðal í Danmörku, Noregi og á Möltu.

„Jafnframt er starfshópnum ætlað að leggja mat á hvaða takmarkanir komi helst til greina hér á landi til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins og gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar breytingar á lögum í samræmi við framangreint,“ segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert