Íslendingur í aðalhlutverki hjá Del Rey

Eðvarð fékk hlutverkið eftir að hafa verið taggaður í Facebook-færslu.
Eðvarð fékk hlutverkið eftir að hafa verið taggaður í Facebook-færslu. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarmaðurinn Eðvarð Egilsson fer með aðalhlutverkið í nýju tónlistarmyndbandi Lönu Del Rey. Eftir að hafa verið valinn í hlutverkið fékk hann símtal frá Lönu sjálfri sem vildi hitta hann vegna myndbandsins. 

Eðvarð hefur verið búsettur í Los Angeles síðastliðin átta ár þar sem hann hefur sinnt leikstörfum og tónsmíðum ásamt því að sitja fyrir í auglýsingum fyrir fyrirtæki á borð við Levi's og Converse. Þá hefur hann leikið í tónlistarmyndböndum fyrir Katy Perry og Havönu Brown.

„Ég hef verið í þessu í einhvern tíma en þetta er eitt stærsta verkefni sem ég hef fengið,“ segir Eðvarð. „Þetta byrjaði með því að vinkona þekkir konu sem velur í hlutverkin og taggaði mig á Facebook þar sem óskað var eftir ákveðinni týpu, stráki með sítt hár og skegg, fyrir tónlistamyndaband.“

Þá vissi Eðvarð ekki hvert hlutverkið væri en hann var boðaður á fund með leikstjóra og framleiðanda stuttu síðar. Í ljós kom að þetta væri tónlistarmyndband við lag Lönu Del Rey og vildu þau fá Eðvarð í hlutverkið. 

„Daginn eftir þegar ég var á leiðinni að þeyta skífum á skemmtistað fékk ég símtal frá Lönu. Hún spurði hvort ég vildi koma í heimsókn og spjalla áður en við færum í þetta verkefni. Ég fór til hennar, við spjölluðum og hún leyfði mér að heyra ýmsa tónlist sem hún er að semja.“

Úr tónlistarmyndbandinu.
Úr tónlistarmyndbandinu. Skjáskot

Stökkpallur fyrir framtíðina

Tökurnar tóku tvo daga og var Lana á viðstödd tökurnar. Eðvarð segir mjög þægilegt sé að vinna með Lönu, hún haldi vel utan um sitt fólk og sé með puttan á púlsinum. Hann segir að verkefnið geti verið stökkpallur fyrir framtíðina. 

„Ég er fyrst og fremst tónlistarmaður en hef tekið að mér ýmis verkefni og sé þetta sem frábært tækifæri,“ segir Eðvarð sem er kominn heim til Íslands og stundar nám í tónsmíðum við Listaháskólann. 

Að neðan má sjá sýnishorn af tónlistarmyndbandinu við lagið White Mustang: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert