Mjótt á munum seinni keppnisdag

Michelle Lauge Quaade kom fyrst í mark í kvennaflokki í …
Michelle Lauge Quaade kom fyrst í mark í kvennaflokki í gær. Hún er með um einnar og hálfrar mínútu forskot á þær Ágústu og Erlu sem eru í öðru og þriðja sæti. Ljósmynd/ÍBR

Seinni keppnisdagur Tour of Reykjavík-götuhjólakeppninnar, sem fram fer í Reykjavík og nágrenni borgarinnar um helgina, hefst klukkan 8:00 frá Laugardal. Talsverð spenna er í bæði karla- og kvennaflokki sem og í liðakeppni kvenna, en sameiginlegur tími beggja daga gildir í heildarkeppninni.

Fyrri dagleiðin var 125 kílómetrar að lengd og var farin frá Laugardal, yfir Mosfellsheiði, gegnum Grafning og upp Nesjavallabrekkuna og Nesjavallaleiðina til baka í Laugardal. Seinni dagleiðin er öll hjóluð innan borgarmarkanna og er 60 kílómetra löng, en leiðin samanstendur af þremur 20 kílómetra hringjum frá Laugardal, meðfram Sæbrautinni og niður í miðbæ og til baka.

Auk þess að keppast um sigur í sameiginlegu keppninni verður einnig keppt til sigurs í seinni dagleiðinni einni og sér.

Tveir Danir keppa um sigur í karlaflokki

Í karlaflokki í gær sigraði Daninn Jeppe Hanssing sem keppir með Team ACR-FBL Elite á tímanum 03:10:10.0. Var hann þremur sekúndum á undan liðsfélaga sínum Nicolai Christensen. Í þriðja sæti í gær var Tobias Mørch og í fjórða sæti var Thor Mørup Prødel sem einnig er í Team ACR-FBL Elite. Þeir Niels van der Pijl og Jacob Bujik sem keppa fyrir Global cycling team voru í fimmta og sjötta sæti og komu þeir ásamt  Prødel saman í holli. Birkir Snær Ingvason var fyrstur Íslendinga, en hann var um níu mínútum á eftir fyrsta manni á tímanum 03:19:09.7.

Það ætti því að vera talsverð spenna í dag hvort Hanssing eða Christensen nái að landa sigri í heildarkeppninni og svo hver af þeim sem lenti í 3.-6. sæti nái þriðja sætinu. Í liðakeppninni (þar sem samanlagður tími þeirra fjögurra sem keppa saman í liði gildir) er Team ACR-FBL elite með nokkuð gott forskot, eða um 14 mínútur. Global cycling team er í öðru sæti og Víkingasveitin í þriðja sæti.

Jeppe Hassing var fyrstur í karlaflokki, en hann var þremur …
Jeppe Hassing var fyrstur í karlaflokki, en hann var þremur sekúndum á undan liðsfélaga sínum Nicolai Christensen. Ljósmynd/ÍBR

Ágústa og Erla gætu gert atlögu að fyrsta sæti

Í kvennaflokki var Michelle Lauge Quaade í fyrsta sæti á tímanum 03:52:20.0. Keppir hún fyrir Team ACR-FBLR Elite. Þær Ágústa Edda Björnsdóttir og Erla Sigurlaug Sigurðardóttir komu næstar á tímanum 03:54:54.7, en þær keppa báðar fyrir Tind. Þær voru jafnar Quaade upp Nesjavallabrekkuna, en eftir það náði hún stuttu forskoti. Johanne Marie Marcher hjá Team ACR-FBL var í fjórða sæti og Lisa Worner í Tindi í fimmta sæti. Rikke Bak Dalgaard í Team ACR-FBL Elite var svo í sjötta sæti.

Í kvennaflokki gæti orðið talsvert spennandi að sjá hvort þær Ágústa og Erla geti sótt saman og slitið sig frá aðalhópnum og reynt að vinna upp þær 2:34 mínútur sem skilur þær frá Quaade. Þá er Tindur með um einnar og hálfrar mínútu forystu í liðakeppni kvenna (sömu reglur og í karlaflokki nema að þrjár konur eru í hverju liði) á Team ACR-FBL elite. Stefnir því í mikla spennu í þeim flokki.

Eins og í gær er talsvert um lokanir og truflanir fyrir umferð bíla á meðan á keppninni stendur, en sem fyrr segir verður ræst klukkan 8:00 og er gert ráð fyrir að keppni ljúki um hádegi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert