Tekst ekki að fækka fé um 20%

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á fundi atvinnuveganefndar í morgun.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á fundi atvinnuveganefndar í morgun. mbl.is/Golli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra hafnar þeirri gagnrýni forystu Bændasamtaka Íslands að ráðuneytið hafi ekki sinnt þeim vanda sem nú blasir við sauðfjárbændum. Þetta sagði hún á fundi atvinnuveganefndar alþingis í morgun en í máli hennar kom líka fram að útlit sé fyrir að ekki takist að fækka fé um 20% á þessu ári, eins og að var stefnt. Fækkunin gæti numið 12 til 13%. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að tilboð ráðherra um að kaupa bændur út úr greininni væri eins og „rússnesk rúlletta“. Alls óvíst væru hverjir tæku því tilboði.

Þorgerður Katrín hóf framsögu sína í morgun á því að vísa á bug gagnrýni Bændasamtaka Íslands um að ráðherra hafi setið auðum höndum í málinu í sumar en formaður samtakanna hefur meðal annars látið hafa eftir sér að honum finnist ráðherra hafa tekið málinu af „mikilli léttuð“.

Útflutningsskylda kemur ekki til greina

Fundurinn í morgun var opinn fjölmiðlum og markmiðið var að ræða stöðu sauðfjárbænda, en eins og kunnugt er hefur afurðaverð lækkað um 26-35% fyrir þessa sláturtíð. Þorgerður Katrín kynnti á dögunum tillögur – sem nú voru til umræðu í nefndinni – þar sem markmiðið er að draga úr framleiðslu á lambakjöti um 20%.

Hún sagði um tillögur sínar að þær hafi ekki orðið til úr tóminu heldur væru afrakstur stífra fundahalda við bændaforystuna og mikillar greiningarvinnu um stöðu sauðfjárbænda. Samtalið við bændaforystuna hefði verið „hunderfitt en uppbyggilegt“. Hún sagði að ekki kæmi til greina að mæta þeirri kröfu Bændasamtaka Íslands að leggja á tímabundna útflutningsskyldu eða ráðast í stórfelld uppkaup á ærgildum. Það væru gamaldags úrræði sem ekki yrðu endurtekin. Þau væru heldur ekki til hagsbóta fyrir neytendur.

„Bændasamtökin fóru fram á útflutningsskyldu og 200 milljónir í markaðsstarf. Ég vildi það ekki, heldur vildi nota búvörusamninginn til að koma til móts við bændur. Sá samningur er tæki til að stjórna landbúnaðarkerfinu okkar og var unnin í samstarfi við bændaforystuna.“

Hjálpa eldri bændum út

Þorgerður Katrín sagði á fundinum að markmiðið með tillögunum hafi verið að eldri bændum yrði gefinn kostur á að fara út úr greininni og/eða að gera bændum kleift hverfa til annarra búgreina á jörðum sínum. Hún benti til að mynda á að skortur væri á íslensku nautgripakjöti á markaði.

Helsti vandinn sem stéttin stæði frammi fyrir væri kjaraskerðing bænda. Það væri sá skammtímavandi sem stjórnvöld yrðu að brúa. Hún sagði að birgðastaðan væri mjög breytileg. Þannig væru um 1.200 til 1.300 tonn til núna, en fyrr ár hefðu birgðirnar verið miklu meiri, eða á þriðja þúsund tonna. Hún sagði að samkvæmt samtölum sínum við forsvarsmenn afurðastöðvanna hefðu þeir ekki áhyggjur af miklum birgðum.

Lömbin þagna

Á meðal tillagna Þorgerðar Katrínar er að borga bændum 90% af innleggi sínu til fimm ára, ef þeir hætta framleiðslu þegar í stað og slátra öllu, bæði lömbum og fullorðnu fé, núna í haust. Þeir fá 70% af greiðslunum til þriggja ára ef þeir hætta á næsta ári. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sagði á fundinum að í tillögunum fælist óeðlilega mikill þrýstingur á bændur á að taka erfiða ákvörðun án nokkurs fyrirvara. Um „þvingunartillögur“ væri að ræða. Tíminn væri of knappur. Hún sagði að óljóst væri hvort tillögurnar væru endanlegar og því héldu bændur í sér.

Nefndarmenn atvinnuveganefndar gagnrýndu einna helst á fundinum að í stefndi að tillögur hennar væru ekki til þess fallnar að hjálpa eldri bændum út úr greininni, heldur hefði spurst út að ungir bændur hygðust nýta sér úrræðin til að bregða búi.

Sigurður Ingi, sem hér sést í bakið á, gagnrýndi tillögur …
Sigurður Ingi, sem hér sést í bakið á, gagnrýndi tillögur ráðherra og sagði að um rússneska rúllettu væri að ræða. mbl.is/Golli

„Ætla menn þá að flytja inn kjöt?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á fundinum að hann vildi láta greina áhrif tillagna ráðherra á einstaka hópa innan raða bænda; hvaða áhrif tillögurnar hefðu á tekjur þeirra í haust. Þá vildi hann greiningu á skuldastöðu bænda og óskaði eftir því að nefndin fengi þær greiningar sem tillögurnar byggi hann. Hann sagði erfitt að átta sig á hverjir myndu taka þessu tilboði stjórnvalda um að bregða búi og því væri um „rússneska rúllettu“ að ræða.

Sigurður Ingi benti, eins og ráðherra, á að birgðir væru minni en í fyrra. Fækkun um 20% myndi þýða, samkvæmt hans útreikningum, að skortur yrði á ákveðnum afurðum, svo sem hryggvöðvum, í júlí árið eftir. „Hvernig ætla menn að bregðast við þessu? Ætla menn þá að flytja inn kjöt?“ Þorgerður benti á móti á að það gæti varla annað en komið bændum til góðs, með tilliti til verðs, ef tímabundinn skortur yrði stundum á einhverjum hluta lambsins.

Þingmaðurinn sagði enn fremur að hann liti svo á að vandamál sauðfjárræktarinnar væru komin til vegna utanaðkomandi aðstæðna svo sem styrkingar krónunnar og pólitískra aðstæðna. Því væri ekki óeðlilegt að ríkið kæmi að úrlausn vandans umfram það sem á kveddi í búvörusamningnum.

Lítil vöruþróun frá 2010

Flestir nefndarmenn lýstu yfir ánægju sinni með „margt“ í tillögum ráðherra en höfðu eitt og annað við þær að athuga. Á meðal þess sem nokkuð var rætt um á fundinum efling á markaðsstarfi og framþróun á vöruframboði landbúnaðarafurða. Þorgerður benti á að hægt væri að nýta betur þá fjármuni sem lagðir séu í slík verkefni og vildi stuðla að eflingu nýsköpunar í landbúnaði. Hún benti á að vannýttar beingreiðslur, upp á 650 milljónir króna frá árinu 2010, hefðu átt að renna til markaðsátaks afurðastöðvanna en sagði að svo virtist sem það fé hefði nýtt til að létta undir útflutningi. Vöruþróun frá árinu 2010 hefði lítil verið.

Þorgerður Katrín sagði væri hægt að nýta þá þekkingu sem menn byggju yfir úr sjávarútvegi, þegar kæmir að markaðssetningu og vöruþróun á landbúnaðarvörum. Hún lagði til að stofnaður yrði öflugur matvælasjóður þar sem helstu greinar íslensks matvælaiðnaðar ynnu saman. Góður rómur var gerður að þeirri tillögu á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka