Margir bændur á Íslandi stefna að óbreyttu í hallarekstur vegna samkeppni við stóraukinn innflutning á landbúnaðarvörum.
Þetta er mat Vífils Karlssonar hagfræðings, sem hefur áætlað áhrifin á íslenska bændur af að auka tollfrjálsa kvóta á landbúnaðarvörur. „Þetta mun þurrrka út hagnað margra bænda. Hagnaður þeirra er enda gjarnan lágt hlutfall af veltu,“ segir Vífill um stöðu bænda.
Fram kom í greiningu Vífils fyrir Bændasamtök Íslands að tekjur bænda af nautakjöti kynnu að minnka um allt að 14,2% vegna aukinna tollfrjálsra kvóta frá ríkjum ESB. Þá gætu tekjur svínaræktenda dregist saman um allt að 16,2%, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.
Vífill Karlsson vann haustið 2015 minnisblað fyrir Bændasamtökin um áhrif samninga Íslands við ESB um landbúnaðarafurðir. Samningarnir fólu meðal annars í sér aukna innflutningskvóta.
Fjallað hefur verið um kvótana í Morgunblaðinu að undanförnu. Samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökunum mun tollfrjáls innflutningskvóti á nautakjöti aukast um 596 tonn en kvóti á svínakjöti aukast um 500 tonn. Þá muni kvóti á alifuglakjöti aukast um 656 tonn. Alls eru þetta 1.752 tonn.
Áformað er að aukningin taki gildi í nokkrum skrefum á næstu árum.
Vífill setti niðurstöðurnar í minnisblaðinu fram í fjórum sviðsmyndum; A, B, C og D.
Samkvæmt þeim myndu tekjur íslenskra bænda af kindakjöti lækka um 0,5%-1% og tekjur af nautakjöti um 1,5%-14,2%. Þá myndu tekjur bænda af hrossakjöti lækka um 2%-3,9% og tekjur af svínakjöti um 11,2%-16,2%. Tekjur af alifuglakjöti myndu lækka um 5%-11,2% og tekjur af osti um 4,7%-8,7%.
Vegna mikillar styrkingar krónunnar telur Vífill tekjurnar geta dregist meira saman en áætlað var.
Fram kom í minnisblaðinu að verð á innfluttu kjöti og ostum innan innflutningskvóta gæti lækkað um 9%-18%. Gert var ráð fyrir að breyting á útsöluverði hefði tilsvarandi áhrif á skilaverð til bænda. Bent var á að lambakjöt væri miklu næmara fyrir verðbreytingum annarra kjötvara en eigin verðbreytingum. Ekki var lagt mat á áhrif breytinganna á framleiðslukostnað bænda.
Vífill segir aðspurður að skipta megi framleiðslukostnaði búgreina í fastan og breytilegan kostnað.
„Auðvitað lækkar kostnaðurinn eitthvað þegar salan minnkar. Hins vegar má ætla að fasti kostnaðurinn sé býsna hár í mörgum búgreinum. Heildarkostnaðurinn myndi því ekki lækka svo mikið þótt salan minnki. Kostnaður bænda af mannvirkjum, landi og lánum er óbreyttur þótt salan minnki. Við fyrstu sýn eru þetta alvarlegar fréttir fyrir þessar greinar. Menn gætu farið hressilega undir núllið,“ segir Vífill og vísar til mögulegrar tekjuskerðingar hjá bændum vegna aukins innflutnings.
Spurður hvort aukin sala á kjöti og osti á Íslandi geti vegið upp áhrif aukins innflutnings á innlenda framleiðslu segir Vífill að verðteygnin sé ekki svo mikil. Það er hugtak sem lýsir áhrifum verðs á neyslu.
„Neytendur munu ekki auka neyslu sína svo mikið að innlendum framleiðendum verði bætt upp sú skerðing sem þeir verða fyrir vegna innflutningskvótans. Jafnvel þótt verð á kjöti lækki um 10%-20% mun neyslan ekki aukast sem því nemur. Næmi neytenda fyrir verðlækkunum er ekki nógu mikið til að vega upp aukinn innflutning í magni,“ segir Vífill.