Á næsta ári er áætlað að tekjur ríkissjóðs utan vaxtatekna verði um 822 milljarðar og gjöld utan vaxtagjalda verði 717 milljarðar. Til viðbótar bætast svo vaxtagjöld upp á 73 milljarða og vaxtatekjur upp á 12 milljarða. En hvaðan koma þessir fjármunir og í hvað fara þeir?
Lang stærsti hluti tekna ríkissjóðs kemur af virðisaukaskatti og tekjuskatti einstaklinga. Nemur hann 29% og 25% af heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun.
Næstu flokkar þar á eftir eru tryggingagjöld og skattar á fyrirtæki með 12% og 11% af heildarkökunni.
Þar á eftir koma ýmsir skattar og gjöld eins og sjá má hér að neðan. Meðal annars er þar um að ræða vörugjöld á áfengi og tóbak, veiðigjald og skatta á bifreiðar og eldsneyti. Telja þessir aðrir flokkar fyrir um 23% af heildartekjur ríkissjóðs.
Stærstu útgjaldaliðir ríkissjóðs eru sem fyrr félags-, húsnæðis og tryggingamál og svo heilbrigðismál. Þessir tveir flokkar verða samtals um 51% af heildarútgjöldum ríkissjóðs á næsta ári. Næst þar á eftir koma mennta- og menningarmál sem standa fyrir 12% útgjalda og vaxtagjöld sem eru 7%. Sjá má nánari skiptingu eftir málaflokkum hér að neðan.
Til að setja útgjöld ríkissjóðs í samhengi við kostnað hvers íbúa landsins tók fjármálaráðuneytið saman eftirfarandi tölur sem sýna hvað ákveðnir málaflokkar kosta hvern og einn íbúa landsins á ári.
Stærsti liðurinn eru heilbrigðismál, en kostnaður hvers íbúa að meðaltali er um 333 þúsund krónur á ári í þann málaflokk. Málefni aldraðra kosta þá um 216 þúsund og örorkugreiðslur í almannatryggingakerfinu 161 þúsund.
Samgöngur kosta hvern íbúa um 100 þúsund á ári og fjölskyldumál um 92 þúsund á ári. Háskólar kosta hvern íbúa 87 þúsund og framhaldsskólar 84 þúsund, umhverfismál 49 þúsund, löggæsla 43 þúsund og húsnæðisstuðningur 39 þúsund.
Samtals gerir þetta um 1,24 milljónir á ári á hvern íbúa.