Magnús Ólafur: „Bull og vitleysa“

Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon, vísar því á bug að …
Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon, vísar því á bug að hafa dregið sér fé. mbl.is/aðsent

„Þetta er ekki skemmti­legt og þetta er ekki satt,“ seg­ir Magnús Ólaf­ur Garðars­son, stofn­andi United Silicon, spurður hvað hon­um finn­ist um þá kæru sem lögð hef­ur verið fram á hend­ur hon­um. Hann ræddi stutt­lega við mbl.is nú í dag.

Magnús Ólaf­ur hafn­ar því al­farið að hafa dregið sér fé úr fé­lagi, eins og hon­um hef­ur verið gefið að sök.

„Bull og vit­leysa“

Stjórn United Silicon hef­ur lagt fram kæru á hend­ur Magnúsi Ólafi, vegna gruns um auðgun­ar­brot og skjalafals. Hon­um er gefið að sök að hafa dregið sér um 500 millj­ón­ir króna frá stofn­un United Silicon, meðal ann­ars með því að hafa gefið út til­hæfu­lausa reikn­inga sem litu út fyr­ir að vera upp­greiðsla á verk­samn­ingi.

Magnús seg­ir að þetta sé „alls ekki“ rétt. „Þetta er nátt­úru­lega bara stærsta bull og vit­leysa sem ég hef nokk­urn tím­ann lesið.“

Hvað varð þá um þessa pen­inga? Það er talað um 500 millj­ón­ir?

„Það hafa ekki farið nein­ir pen­ing­ar út úr fé­lag­inu,“ seg­ir hann. Þess má geta að Magnús Ólaf­ur hef­ur ekki átt aðkomu að rekstri eða stjórn­un fé­lags­ins frá því í mars.

Ætlar að verja sig

Magnús Ólaf­ur seg­ist hafa ráðið sér nýj­an lög­mann. „Ég er að skrifa frétta­til­kynn­ingu í sam­starfi með nýj­um lög­manni sem ég hef ráðið mér,“ seg­ir Magnús. Hann vill ekki gefa upp hver sá lögmaður er.

Ólaf­ur Þór Hauks­son héraðssak­sókn­ari staðfesti við mbl.is fyrr í dag að ein kæra hafi borist á borð embætt­is­ins vegna máls­ins. Eig­end­ur United Silicon hafa hins veg­ar greint frá því að þeir hygg­ist kanna rétt­ar­stöðu sína vegna máls­ins.

Magnús Ólaf­ur vildi ekki svara fleiri spurn­ing­um mbl.is um málið. „Ég verð bara að láta þig lesa frétta­til­kynn­ing­una. Við ætl­um að verja okk­ur á móti þessu og ég vona að sann­leik­ur­inn komi fram.“

Ari­on met­ur stöðu sína

Kar­en Kjart­ans­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi United Silicon, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að vís­bend­ing­ar um hina meintu refsi­verðu hátt­semi hefðu komið í ljós við um­fangs­mikla vinnu nýrr­ar stjórn­ar sem nú vinn­ur að end­ur­skipu­lagn­ingu fé­lags­ins til að ná yf­ir­sýn yfir starf­semi þess.

Þá kom fram fyrr í dag að bæði líf­eyr­is­sjóðirn­ir, sem og Ari­on banki, meiri­hluta­eig­andi í United Silicon séu að skoða rétt­ar­stöðu sína vegna máls­ins. „Ég get staðfest að það er verið að skoða þetta inn­an­húss,“ seg­ir Har­ald­ur Guðni Eiðsson, upp­lýs­inga­full­trúi Ari­on, í sam­tali við mbl.is. Hann seg­ir að eng­in ákvörðun liggi fyr­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert