Magnús Ólafur: „Bull og vitleysa“

Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon, vísar því á bug að …
Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon, vísar því á bug að hafa dregið sér fé. mbl.is/aðsent

„Þetta er ekki skemmtilegt og þetta er ekki satt,“ segir Magnús Ólafur Garðarsson, stofnandi United Silicon, spurður hvað honum finnist um þá kæru sem lögð hefur verið fram á hendur honum. Hann ræddi stuttlega við mbl.is nú í dag.

Magnús Ólafur hafnar því alfarið að hafa dregið sér fé úr félagi, eins og honum hefur verið gefið að sök.

„Bull og vitleysa“

Stjórn United Silicon hefur lagt fram kæru á hendur Magnúsi Ólafi, vegna gruns um auðgunarbrot og skjalafals. Honum er gefið að sök að hafa dregið sér um 500 milljónir króna frá stofnun United Silicon, meðal annars með því að hafa gefið út tilhæfulausa reikninga sem litu út fyrir að vera uppgreiðsla á verksamningi.

Magnús segir að þetta sé „alls ekki“ rétt. „Þetta er náttúrulega bara stærsta bull og vitleysa sem ég hef nokkurn tímann lesið.“

Hvað varð þá um þessa peninga? Það er talað um 500 milljónir?

„Það hafa ekki farið neinir peningar út úr félaginu,“ segir hann. Þess má geta að Magnús Ólafur hefur ekki átt aðkomu að rekstri eða stjórnun félagsins frá því í mars.

Ætlar að verja sig

Magnús Ólafur segist hafa ráðið sér nýjan lögmann. „Ég er að skrifa fréttatilkynningu í samstarfi með nýjum lögmanni sem ég hef ráðið mér,“ segir Magnús. Hann vill ekki gefa upp hver sá lögmaður er.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti við mbl.is fyrr í dag að ein kæra hafi borist á borð embættisins vegna málsins. Eigendur United Silicon hafa hins vegar greint frá því að þeir hyggist kanna réttarstöðu sína vegna málsins.

Magnús Ólafur vildi ekki svara fleiri spurningum mbl.is um málið. „Ég verð bara að láta þig lesa fréttatilkynninguna. Við ætlum að verja okkur á móti þessu og ég vona að sannleikurinn komi fram.“

Arion metur stöðu sína

Kar­en Kjart­ans­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi United Silicon, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að vís­bend­ing­ar um hina meintu refsi­verðu hátt­semi hefðu komið í ljós við um­fangs­mikla vinnu nýrr­ar stjórn­ar sem nú vinn­ur að end­ur­skipu­lagn­ingu fé­lags­ins til að ná yf­ir­sýn yfir starf­semi þess.

Þá kom fram fyrr í dag að bæði lífeyrissjóðirnir, sem og Arion banki, meirihlutaeigandi í United Silicon séu að skoða réttarstöðu sína vegna málsins. „Ég get staðfest að það er verið að skoða þetta innanhúss,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion, í samtali við mbl.is. Hann segir að engin ákvörðun liggi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert