„Þetta eru okkar gersemar“

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Björt Ólafs­dótt­ir tók við hlut­verki um­hverf­is- og auðlindaráðherra setti hún sér tvö mark­mið, að grípa til aðgerða í lofts­lags­mál­um og að vernda víðáttu ósnort­inn­ar nátt­úru á miðhá­lendi Íslands. Þetta kom fram í máli Bjart­ar í ræðu henn­ar á Alþingi í kvöld.

Stærsta skrefið í þágu aðgerða í lofts­lags­mál­um hef­ur þegar verið stigið að sögn Bjart­ar. „Það verða ekki gerðir íviln­ana­samn­ing­ar við meng­andi stóriðju í þess­ari rík­is­stjórn eða í hvaða rík­is­stjórn sem Björt framtíð mun eiga aðild að,“ sagði Björt.

Á næstu mánuðum verði stigið annað stórt skref í þess­um efn­um með aðgerðaáætl­un í lofts­lags­mál­um sem um­hverf­is­ráðherra mun leiða ásamt for­sæt­is­ráðherra. „Aðgerðaáætl­un­in er horn­steinn í að horfa til lengri framtíðar þar sem við höf­um alla burði til að verða kol­efn­is­hlut­laust land,“ sagði Björt.

„Þetta verðum við að varðveita“

Vék hún máli sínu næst að sínu seinna mark­miði er varðar vernd­un víðerna og ósnortna nátt­úru lands­ins. „Þetta eru okk­ar ger­sem­ar,“ sagði Björt. „Þær finn­ast ekki ann­ars staðar í heim­in­um á þeim mæli­kv­arða sem við þekkj­um.“

Á miðhá­lend­inu megi finna staði þar sem maður upp­lifi eins og að þar hafi ekki nokk­ur ann­ar stigið niður fæti. „Þetta er upp­lif­un sem fáir staðir ann­ars staðar í heim­in­um gefa. Og þetta vita ferðamenn­irn­ir, og þess vegna koma þeir hingað.  Þetta vita bænd­urn­ir sem sækja fé sitt á fjall á hverju hausti, þetta vita heima­menn. Þetta verðum við að varðveita,“ sagði Björt.

Hún seg­ir vinn­una í átt að þess­um mark­miðum hafa gengið vel und­an­farna átta mánuði, eða frá því að hún tók til starfa sem um­hverf­is­ráðherra.

Mál­efn­in stærri og mik­il­væg­ari en flokk­ur­inn

„Björt framtíð er lít­ill flokk­ur og kannski verður hann ekki til staðar um ókom­in ár, kannski verður hann risa­stór,“ sagði Björt síðar í ræðunni. Það skipti hins veg­ar ekki öllu máli hvort flokk­ur­inn lifi áfram held­ur eru það mál­efn­in sem eiga að ráða för að sögn Bjart­ar.

„Ég vil helst að all­ir þing­menn og ráðherr­ar geri sig breiða um nátt­úru og um­hverfi okk­ar og setji sér og sín­um flokk­um há­leit mark­mið þar um,“ sagði Björt.

Fagnaði hún því sér­stak­lega að þing­menn annarra flokka á Alþingi hefðu snúið af þeirri braut að vilja greiða leið fyr­ir­tækja er hyggja á upp­bygg­ingu meng­andi stóriðju hér á landi. „Al­veg eins og íbú­ar Reykja­nes­bæj­ar vita manna best höf­um við því miður ekki enn kvatt þetta vanda­mál þrátt fyr­ir góðar fyr­ir­ætlan­ir,“ sagði Björt.

Lauk hún máli sínu með því að nefna mál­efni inn­flytj­enda og benti á að nú lægi fyr­ir frum­varp Bjartr­ar framtíðar sem skil­greini bet­ur viðkvæma stöðu þeirra barna sem hingað leita í ósk um alþjóðlega vernd að því er fram kom í máli ráðherra.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert