Milljarður í framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Ferðamenn við Gullfoss. Lagt er til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða eflist …
Ferðamenn við Gullfoss. Lagt er til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða eflist um tæpar 200 m.kr. og hafi því tæpar 800 milljónir til ráðstöfunar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Auka á fjárframlög til framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um tæpar 200 m.kr. og verja á auknu fé til rannsókna og gagnaöflunar í ferðaþjónustu samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að aukin framlög til eflingar ferðaþjónustu séu þær helstu áherslubreytingar sem liggja til frumvarpinu af hálfu ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

Alls sé gert ráð fyrir að svigrúm í málaflokknum aukist um 570 milljónir króna og verði tæplega 2,3 milljarðar.

Lagt er til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða eflist um tæpar 200 m.kr. og hafi því tæpar 800 milljónir til ráðstöfunar. Þá verði auknu fé varið til rannsókna og gagnaöflunar í ferðaþjónustu, auk þess sem stuðningur við markaðsstofur landshlutanna verði aukinn verulega.

Byggingarannsóknir verða efldar í samræmi við áherslur og verkefni sem fram komu í fjármálaáætlun fyrr á árinu og er gert ráð fyrir sérstöku 40 m.kr. framlagi til Nýsköpunarmiðstöðvar í því skyni.

Í orkumálum muni heildarframlög til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun hækka samkvæmt frumvarpinu um 306 m.kr. á milli ára og verða tæpir 3,3 milljarðar. Munar þar mestu um liðlega 300 m.kr. stofnstyrki til nýrra hitaveitna og 160 m.kr. aukningu á niðurgreiðslum á orkukostnaði til húshitunar til að mæta verðhækkunum og aukinni notkun. Á móti komi að fjárheimildir til tímabundinna verkefna á þessu sviði, sem er lokið, falla niður frá fyrra ári.

Lítil breyting verður hins vegar á framlögum til Tækniþróunarsjóðs eða annarra styrkja til nýsköpunarfyrirtækja, sem sé um 2,3 milljarðar fyrir hvorn lið. Þá sé einnig gert ráð fyrir að endurgreiðslur á framleiðslukostnaði kvikmynda breytist lítið á milli ára og verði liðlega 1,1 milljarður króna.

Af öðrum verkefnum í orkumálum má nefna að gert er ráð fyrir 20 m.kr. framlagi til að greina möguleika á smávirkjunum á landsvísu og staðbundnum lausnum í orkumálum, í samræmi við skilgreindar aðgerðir og markmið sem fram komu í fjármálaáætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert