Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, fór óhefðbundna leið í ræðu sinni á Alþingi í kvöld þar sem umræður fara fram um stefnuræðu forsætisráðherra. Hún spólaði 30 ár fram í tímann og lýsti framtíðarsýn sinni eins og hún gæti orðið ef stefnumál Pírata næðu fram að ganga. Hún horfði til baka úr framtíðinni og rifjaði upp ástandið eins og það var og hvernig það þróaðist.
Við erum stödd í framtíðarsýn Birgittu þar sem hún horfir til baka, til ársins 2017: „Ég man þá tíð þegar sjúkt og gamalt fólk var geymt á göngum í mygluðum sjúkrastofnunum og fólk hreinlega féll fyrir eigin hendi á öryggisdeildum fyrir geðsjúka, nú ef það dó þá ekki bara heima hjá sér vegna þess hve hratt fólki var vísað heim eftir flóknar og erfiðar aðgerðir. Ég man að það átti að einkavæða allt á sama tíma og við áttum að borga rosalega mikinn skatt. Ég man líka hvernig það var fyrir allt þetta fólk sem í miðju góðæri árið 2017 átti ekki einu sinni þak yfir höfuð sér og hírðist í tjöldum. Eldri borgurum var meira segja refsað fyrir að vinna og látið borga fyrir vinnuna sína.“
Lýsingarnar eru ekki kræsilegar, en að mati Birgittu er þetta sá veruleiki sem við búum við í dag. „Ég man líka hvernig stjórnmálamenn komust upp með að etja fólki saman og á meðan það reifst og skammaðist á samskiptamiðlum út af einhverju sem fyllti það heilagri vandlætingu einn daginn og var gleymt næsta, þá hvarf auðurinn frá okkar sameiginlegu auðlindum inn í skattaskjól víða um heim.“
Þetta átti þó eftir að breytast þegar stefnumál Pírata náðu fram að ganga í framtíðarsýninni, enda varð þar alþjóðleg sátt um verulega uppstokkun á fjármagnsflutningum í skúffur og skattaskjól víða um heim. „Eftir stóra heimshrunið sem varð upp úr 2020, þurfti mörg þjóðríki að endurskilgreina forgangsröðun og sjálfbærniviðmið. Það var sem hægðist á öllum heiminum og öll sú mikla vinna sem átti sér stað í ýmsum hugveitum í hruninu 2008 sem átti þá að sporna við því sem gerðist 2020, var loks gerð að veruleika víða um heim, það átti líka við um Ísland. Árið 2023 var ákveðið að óheimilt væri að samþætta bankastarfsemi við fjárglæfrastarfsemi. Kennitöluflakk og brask sem einkenndi það sem margir kalla gamla Ísland heyrir sögunni til enda var internetið nýtt til að efla samvinnu á milli rannsóknarblaðamanna og sérfræðinga í hvítflibbaglæpum. Ísland tók sér loks afgerandi sérstöðu til að verja upplýsinga og tjáningarfrelsi að ógleymdri friðhelgi einkalífsins sem um tíma nánast glataðist.“
En það var fleira sem gerðist á þessum 30 árum: „Valdefling almennings jókst til muna, einfaldlega vegna þess að réttur þeirra til upplýsinga og áhrifa var lögfestur í okkar æðstu lögum og lýðræðisþátttaka varð nánast eins ávanabindandi og Candy Crush. Þar sem áður var herstöð er núna kallað Kísilhæð norðursins. Inn á milli fallegu gróðurhúsaklasanna á Reykjanesi má sjá Minecraft útfærslu af gagnaverum sem hýsa viðkvæm og mikilvæg gögn frá öllum heimshornum, líka þessi bönnuðu.“
Birgitta flutti ræðu sína dreymin á svip, og áfram hélt samfélagið að batna í framtíðarsýninni. „Borgaralaun voru innleidd í skrefum, fyrst var gerð sambærileg tilraun og í Finnlandi og Hollandi, sem þó var mun víðtækari hér vegna þess hve fámenn við erum. Allir skjólstæðingar vinnumálastofnunar og tryggingastofnunar fengu skilyrðislausa grunnframfærslu. Hætt var að skilgreina fólk sem atvinnuleysingja og öryrkja. Kvíða og streitusjúkdómum fækkaði til muna. Allskonar skemmtileg verkefni og sjálfboðaliðavinna urðu til mjög fljótlega eftir að tilrauninni var ýtt úr vör.“
Bestu fréttirnar í þessari 30 ára sýn voru þó þær, að mati Birgittu, að mannkynið ákvað að hætta að ímynda sér að hægt væri að flytja til mars og ákvað að bjarga því sem bjargað yrði á jörðinni áður en það yrði um seinan. „Ísland var fyrst landa til að verða að einum samfelldum þjóðgarði og þó svo að landið og náttúran sé í sífelldri mótun og margar hörmungar hafi dunið yfir heiminn allan út af ýktu veðurfari vegna hlýnun jarðar og mengun af mannavöldum, þá er mannkynið komið á réttan kjöl og kvíðinn og óttinn sem ég ólst upp við er ekki lengur hluti af þjóðarsálinni. Það er léttara yfir þjóðinni minni, enda var farið í þjóðarátak um að útrýma fátækt og kerfisbundnu óréttlæti fyrir löngu síðan.“