Ríkisstjórnin ekki líkleg til afreka

Sigurður Ingi Jóhannson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Golli

„Það er engu líkara en ríkisstjórnin sé á sjálfstýringu. Stefnu- og ráðaleysið er algert og þegar tillögur eða aðgerðir koma fram þá er undir hælinn lagt hvar þær lenda. Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni.“

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni í kjölfar stefnuræðu Bjarna Bendiktssonar forsætisráðherra. Sigurður sagði ekki hægt að segja að ríkisstjórnin væri líkleg til mikilla afreka. Stjórnarsáttmálinn væri þunnur þrettándi, lítið hefðu spurst til ríkisstjórnarinnar í sumar, hún lítt sýnileg og flyti sofandi að feigðarósi á meðan stór og smá mál biðu afgreiðslu og úrlausnar.

„Árangur og horfur í efnahagmálum eru sannarlega góðar en koma ekki af sjálfu sér. Árangur næst með samvinnu, samstöðu, markvissri vinnu og úthaldi og á fyrri ríkisstjórn mikinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur. Fyrirséð er að áfram verði vöxtur í þjóðarframleiðslu og því þarf að nýta tímann vel til uppbyggingar, fyrir almenning, fyrir fólkið í landinu.“

Sigurður Ingi sagði það rétt hjá forsætisráðherra að þolinmæði þyrfti þegar kæmi að uppbyggingu innviða en spurði jafnframt hvenær kæmi að því að það yrði gert. Tækifærið væri nú að mati Framsóknarmanna. Ekki væri að sjá að nota ætti nokkurra tuga milljarða afgang á ríkissjóði til að búa heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið í haginn fyrir framtíðina.

„Ríkisstjórnin virðist heldur ekki ætla að nota ríkulegan afgang til að fjárfesta í samgöngum sem er ein mikilvægasta fjárfesting sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð, en vegakerfið er víða bágborið. Stöðu aldraða þarf að bæta áfram og nýta þá vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Þau sem ruddu brautina fyrir okkur sem yngri erum eiga að njóta virðingar, jafnræðis og sanngirni.“

Fólk geti treyst eftirliti með fjármálastofnunum

Þrátt fyrir góða stöðu efnahagsmála væri ein stærsta áskorunin í efnahagsmálum okurvextir og óeðlilegar gengissveiflur. „Rannsaka þarf samspil hárra vaxta og gengis til að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur og fyrirbyggja skaðleg áhrif á útflutningsatvinnugreinar. Agi og samvinna þarf að ríkja á milli nýrrar peninga- og fjármálastefnu til að tryggja þann stöðugleika sem grunnur var lagður að í tíð síðustu ríkisstjórn.“

Framsóknarmenn vildu einnig sjá uppstokkun á bankakerfinu. Bankakerfið ætti að þjónusta heimili og fyrirtæki. „Hinn almenni neytandi þarf að geta treyst því að eftirlitið sé virkt og aðhald sé gagnvart fjármálastofnunum. Margt hefur áunnist í að endurvekja traust, en þónokkuð er í land.“ Stærsta málið um ókomna framtíð væri þó loftlagsmálin.

„Það er okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir breytingum til að hlúa að undirstöðuatvinnugreinum og fjölga störfum með nýsköpun og menntun. Ég fæ ekki betur séð en að landbúnaðarráðherra sé að þrengja svo að íslenskri matvælaframleiðslu og að það stefni í algjört hrun í greininni og afleiddum störfum víðsvegar um land.“

Þetta samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn þegjandi og hljóðalaust en bæri þó ábyrgðina. „Við framsóknarmenn teljum að staðan sé víða mjög góð og mikil tækifæri í að hér haldi áfram skynsamlegur vöxtur. Hins vegar þarf aðra stjórnarstefnu. Við höfum efni á því að búa betur að þeim sem minna mega sín í samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert