Tekjur skertar hjá þeim sem vilja vinna

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, telur vel hægt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri, til að mynda með sameiningu stofnanna og frekari ábyrgð ríkissjóðs. Hún segir mikilvægt að lækka áfram skuldir til að draga úr vaxtakostnaði, því það gefi meira svigrúm í velferðarmálum. Þetta kom fram í ræðu hennar á Alþingi í kvöld, þar sem fram fara umræður um stefnuræðu forsætisráðherra.

Í ræðu sinni taldi hún nokkur mál sem brýnt mál sem gætu ekki beðið, enda myndi kostnaður aukast samfara biðinni. Hún sagði til að mynda mikilvægt að leggja áherslu á geðheilbrigðismál og hvernig mætti efla þjónustu við þá sem þyrftu á henni að halda.

Í tilefni af Alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga var haldinn fræðslufundur sem fjallaði um árangursríkar forvarnir og stuðning við fjölskyldur eftir sjálfsvíg. Margt átakanlegt kom þar fram en meginskilaboðin voru þau að ef unnið er markvisst að forvörnum er hægt að ná umtalsverðum árangri og bjarga mannslífum. Ég veit að okkar fagfólk í heilbrigðisstéttinni skilur þetta mæta vel, en stjórnvöld þurfa að veita miklu meiri stuðning og koma betur til móts við fagaðila í greininni. Það er engin sérstök þolinmæði gagnvart frekari töfum á fjárfestingu í þessum málaflokki og við verðum að gera betur.“

 Hafa ekki þolinmæði til að bíða

Lilja benti á að ákveðinn hópur eldri borgara hefði orðið fyrir verulegum skerðingum þegar frítekjumarkið var lækkað. Ráðstöfunartekjur þessa hóps hefðu lækkað töluvert. „Þetta er einmitt fólkið sem er enn á vinnumarkaðnum og langar áfram að vinna. Þessi hópur upplifir ekki aðeins verri kjör, heldur að búið sé að setja ákveðnar skorður á hann og að skilaboð samfélagsins séu að eldri borgarar eigi að fara af vinnumarkaðnum. Þetta ég tel að séu kolröng skilaboð, því lífaldur þjóðarinnar fer ört hækkandi.

Lilja sagði brýnt að hækka frítekjumarkið aftur og hraðar en nú er ráðgert. Eldri borgarar ættu það inni hjá yngri kynslóðum að brugðist væri hratt og örugglega við. „Við í Framsóknarflokkum erum sannarlega tilbúin til þess að vinna að leiðum svo það geti orðið að veruleika veruleika. Þessi hópur eldri borgara hefur ekki þolinmæði til að bíða eftir frekari aðgerðum.“

Þá kom Lilja inn á samdrátt í bóksölu og mikilvægi þess að sporna við henni. Hún sagði Íslendinga vera bókaþjóð og að bækur væru vettvangur nýsköpunar og grundvöllur símenntunar. Þingmenn Framsóknarflokksins ætluðu því að leggja fram frumvarp á næstu dögum um virðisaukaskatt sem felur í sér afnám skatts á bækur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert