Þýskir ferðamenn á stórum sérhönnuðum fjallabíl voru í gær stöðvaðir af landvörðum í Nýjadal vegna meints utanvegaaksturs frá Laugafelli niður að Nýjadal. Hafði leiðsögumaður sem var samnátta ferðamönnunum í Laugafelli nóttina áður látið vita af förum utan vegar á löngum köflum og pössuðu förin við bílinn sem um ræðir. Játuðu mennirnir fyrir landverði að hafa keyrt við hlið vegarins, en að þeir hafi ekki talið slíkt utanvegaakstur.
Ólafur Schram leiðsögumaður segir í samtali við mbl.is að hann hafi hitt mennina í Laugafelli á mánudagskvöldið þar sem ökumaðurinn hafi meðal annars sagt sér að þetta væri hans sjöunda ferð til Íslands.
Daginn eftir þegar Ólafur lagði af stað niður Skagfirðingaleið að Nýjadal tók hann eftir sporum utan vegarins. „Ég er orðinn nokkuð viss í svona málum. Þekki munstrið á Unimog bílum og þetta var sama breiddin og á dekkjunum,“ segir Ólafur. Hann hafi því tekið myndir af förunum og haft samband við landvörð í Nýjadal og látið þau vita af háttalaginu.
Ólafur kom um 20 mínútum síðar niður í Nýjadal þar sem landvörður hafði stöðvað för bílsins. Ólafur segir við mbl.is að ökumaðurinn hafi þarna þverneitað fyrir að hafa stundað utanvegaakstur og að samferðamenn hans hafi tekið undir það.
Stefanía R. Ragnarsdóttir, landvörður í Nýjadal, segir í samtali við mbl.is að fyrst um sinn hafi mennirnir neitað sök, en þegar hún hafi sýnt þeim myndirnar og borið saman förin á þeim við skurðinn á dekkjunum hafi ökumaðurinn viðurkennt að hafa ekið við hlið vegarins. „Þeir töldu þetta ekki utanvegaakstur þar sem þetta var við hlið vegarins,“ segir Stefanía og bætir við að hún hafi ítrekað við þá að það væri einmitt svona akstur sem flokkaðist sem utanvegaakstur.
Skrifuð var skýrsla um málið sem svo fer til lögreglunnar sem ákveður áframhald þess.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ólafur kemur að því að upplýsa um utanvegaakstursmál, en fyrr í sumar lét hann lögregluna vita af akstri ferðamanna við Fjallsárlón sem keyrðu utan vegar.
Ólafur segir að svo virðist vera sem ökumaðurinn í gær hafi verið að reyna að spara sér „þvottabrettin“ á veginum, en að hann hafi þó verið á þannig bíl að lítið mál sé að minnka loftþrýsting í dekkjum. Hann segir að gera þurfi meira til að koma í veg fyrir þessi náttúruspjöll. „Ég vil hafa miklu strangari reglur og að geta vísað fólki úr landi sem þetta gerir,“ segir hann. Þannig þurfi sektir og viðurlög að hafa áhrif á fólkið.
Segir Ólafur að miðað við þær sektir sem séu í utanvegaakstursmálum sé líklegast að hafa áhrif með að upplýsa um hverjir gerendurnir séu. Þannig muni mögulega jeppaklúbbar sem þeir tilheyri erlendis ekki vilja tengja sig við ökumenn sem gerist sekir um utanvegaakstur.