Viljað upplýsa allt sem heimilt er

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Undanfarið hefur stjórnsýslan verið nokkuð til umfjöllunar vegna mála sem alla jafna vekja ekki endilega upp margar lögfræðilegar spurningar en því mun meiri tilfinningar,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra meðal annars í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Sigríður fór í ræðu sinni yfir einhver þeirra mála sem hvað hæst hafa borið í umræðunni að undanförnu og falla undir hennar ráðuneyti, meðal annars stofnun Landsréttar, útlendingamál og lög um uppreist æru.

Kunni að hafa borið löggjafann ofurliði

„Í lögum er ævafornt ákvæði um heimild til þess að veita dæmdum sakamönnum sem hafa afplánað sinn dóm uppreist æru og að uppfylltu skilyrði um góða hegðun. Með uppreist æru öðlast dæmdir menn óflekkað mannorð en óflekkað mannorð er skilyrði fyrir því að geta gegnt margháttuðum trúnaðarstörfum fyrir hið opinbera og jafnvel stundað tiltekna atvinnu,“ útskýrði Sigríður.

Uppreist æru feli hvorki í sér að brot hafi ekki verið framið né að það hafi verið léttvægt að sögn Sigríðar. „Áratugalöng framkvæmd við veitingu uppreistar æru virðist hafa leitt til heldur vélrænnar afgreiðslu á umsóknum um uppreist æru, því miður með vísan til skráðra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins. Þarna kann stjórnsýslan að hafa borið löggjafann ofurliði,“ sagði Sigríður.

Vonast eftir góðu samstarfi við þingið

Þegar séu til endurskoðunar lagaákvæði um uppreist æru að sögn Sigríðar en líkt og fram hefur komið var hafist handa við endurskoðun umræddra lagaákvæða í vor. Vakti hún jafnframt athygli á því að forveri hennar í starfi hafi einnig talið mikilvægt að sú endurskoðun færi fram.

„Ég vil að gefnu tilefni nefna það að dómsmálaráðuneytið hefur vilja veita allar upplýsingar sem því er heimilt að veita um afgreiðslur þessara mála,“ sagði Sigríður ennfremur og vísaði þar til nýlegs úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál um birtingu gagna er varða uppreist æru.

„Ráðuneytið hefur ekkert annað í hyggju en að veita allar þær upplýsingar sem dýpkað geta umræðu um þessi mál sem önnur,“ sagði Sigríður en þegar hafa verið birt einhver þeirra gagna sem um ræðir. Kvaðst hún ekki hafa fengið annað en jákvæð viðbrögð við boðuðum lagabreytingum og kveðst hún vonast til þess að eiga gott samstarf við þingið við þá vinnu sem framundan er í þeim efnum.

Móttaka 50 flóttamanna á næsta ári

Vék ráðherra máli sínu því næst að málefnum útlendinga hér á landi. Um síðustu aldamót hafi erlendir ríkisborgarar verið innan við 3% landsmanna, nú séu þeir 9%.

„Á hverju ári undanfarin ár hefur um þúsund útlendingum verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Íslendingar taka, og vilja taka, vel á móti útlendingum,“ sagði Sigríður en ný lög um útlendinga voru samþykkt undir lok síðasta kjörtímabils.

Lögin kveða á um málsmeðferð sem er í samræmi við íslenskan stjórnsýslurétt og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda að sögn Sigríðar og fá einstök mál öll sérstaka skoðun samkvæmt lögunum. Fram kom í máli ráðherra að frá árinu 2015 hafi 109 flóttamenn komið hingað til lands og þá hafi ríkisstjórnin kynnt áform um móttöku 50 flóttamanna á næsta ári.

92 fengið hæli það sem af er þessa árs

Þá komi hingað einnig fólk af sjálfsdáðum sem sæki um hæli og hefur fjöldi þeirra einstaklinga margfaldast undanfarin ár að því er fram kom í máli ráðherra. Það sem af er þessu ári hafi 92 einstaklingum verið veitt hæli hér á landi, 111 í fyrra og 82 einstaklingum árið þar áður.

„Það var viðbúið þegar við þingmenn samþykktum nýja útlendingalöggjöf að hún þyrfti fljótlega að sæta endurskoðun í ljósi reynslunnar,“ sagði þá Sigríður. „Ég hef lýst því að við breytingar á útlendingalögum sem fyrirhugaðar eru á komandi þingi verði tekið vel á móti öllum tillögum þingmanna hvað varðar lagabreytingu og sjónarmið þar að baki. Ég finn að það er mikill áhugi á málaflokknum hér á þingi,“ bætti hún við.

Hyggst hún því kalla til samráðsvettvang með fulltrúum allra þingflokka sem verði til samráðs við dómsmálaráðuneytið í þeirri vinnu við breytingar á lögum um útlendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert