Engar efndir hjá ríkisstjórninni

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði erindi ríkisstjórnarinnar ekkert annað en að viðhalda stöðnuðu kerfi, í umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi.

„Það er ekki verið að nota þetta svigrúm sem er til staðar til að búa okkur undir framtíðina,“ sagði Logi. „Það átti að breyta öllu fyrir kosningar og það töluðu allir í þá átt en það eru engar efndir.“

Hann sagði forsætisráðherra þess í stað ráðast á stéttarfélög og launafólk og segja þau helstu ógnina við stöðugleika, þegar helsta ógnin væri í raun og veru ríkisstjórnin sjálf.

Stenst ekki væntingar 

Logi talaði um að stjórnarliðum hafi verið tíðrætt um norræna velferðarkerfið. Lagði hann áherslu á að það snúist ekki bara um efnahagslegan stöðugleika heldur félagslegan stöðugleika og skortur hafi verið á honum.

„Fjárlagafrumvarpið stenst engar væntingar þegar skoðuð eru einkunnarorð ríkisstjórnarinnar um jafnvægi og framtíð.“

Háskóli Íslands. Logi segir háskólana á landinu fjársvelta.
Háskóli Íslands. Logi segir háskólana á landinu fjársvelta. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjársveltir háskólar

Logi sagði fjárlagafrumvarpið kalla á niðurskurð í opinberri þjónustu og opinberu heilbrigðiskerfi. Háskólanir séu fjársveltir og hálfdrættingar á við skólana á Norðurlöndunum. Það sama megi segja um framhaldsskólana.

„Eins ótrúlegt og það nú er verða framhaldsskólarnir áfram í fjárkröggum þrátt fyrir erfið ár,“ sagði hann.

Einnig nefndi hann að framlög til samgöngumála væru mjög langt frá kosningaloforðum. Víða um landið hafi samgöngukerfið ekki náð að uppfylla lágmarkskröfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert