Verulega hallar á öryrkja í fjárlagafrumvarpi næsta árs að mati Ellenar Calmon, formanns Öryrkjabandalags Íslands. Stefnt sé að lögfestingu á NPA (notendastýrðri persónulegri aðstoð) en hvergi sé vikið orði að lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) eða viðaukans við samninginn sem samkvæmt þingsályktunartillögu átti að fullgilda fyrir 1. janúar á næsta ári.
Öryrkjabandalagið mun taka fjárlagafrumvarp til gagngerrar athugunar og senda inn umsögn á næstu vikum.
Í fréttatilkynningu frá Ellen segir að athygli veki að þó að að eitt af markmiðum frumvarpsins sé að hækka heildartekjur ellilífeyrisþega, þá sé ekkert minnst á að hækka heildartekjur örorkulífeyrisþega.
„Ekkert kemur fram í þessu frumvarpi, við fyrstu athugun, sem bendir til að hækka eigi tekjumörk eða upphæðir fyrir húsnæðisbætur,“ segir í tilkynningunni
Þá er Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagður hafa fært lúalegt viðhorf til tekjulágra í orð í Kastljósi RÚV. Sagði ráðherra þar telja muna mikið um 7% hækkun til þeirra sem halda einir heimili, en lífeyrir þeirra á að hækka úr 280.000-300.000 kr..
Bendir Ellen á að 7% hækkunin taki auk þess aðeins til fámenns hóps, því lífeyrir hækki annars um 4,7%. „Í krónutölum þýðir það að fullur lífeyri almannatrygginga hækkar um rúmar 10 þús kr. fyrir skatt.“ Tæpar 228 þús. kr. hækki í rúmar 238 þús kr., sem eftir skatt svari til um 6.700 kr. hækkunar. „Þessi hækkun mun ekki breyta stöðu fólks með lágar tekjur sem mun, í boði ríkisstjórnarinnar, áfram þurfa að velta hverri krónu fyrir sér og vera fast í spennitreyju fátæktar þrátt fyrir að vera útsjónasamara en hátekjufólk.“
Á sama tíma sé það ætlunin að ríkissjóður skili 44 milljarða króna afgangi.