Fyrr í vikunni varð það óhapp á flughlaði Keflavíkurflugvallar að ökumaður vinnuvélar frá veitingaþjónustufyrirtæki ók á flugvél í stæði. Atvikið varð með þeim hætti að ökumaðurinn steig á eldsneytisgjöfina í stað bremsunnar þegar hann ók að flugvélinni.
Dæld kom í skrokk flugvélarinnar við höggið sem varð til þess að brottför hennar dróst um sólarhring á meðan verið var að ganga úr skugga um að hún væri hæf til flugs. Þegar atvikið átti sér stað var verið að undirbúa flugvélina fyrir það að leggja af stað.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum gat ökumaðurinn ekki framvísað vinnuvélaskírteini þar sem hann hafði aldrei öðlast þau. Málið er í rannsókn.