Nýnasíska frétta- og athugasemdavefsíðan The Daily Stormer skráði lén sitt á Íslandi í lok ágúst. Vefsíðan er vettvangur bandarískra nýnasista, en síðan hefur átt í vandræðum með að fá lén síðan .com léninu þeirra var lokað.
Samkvæmt fréttastofu Newsweek var bandarísku léni Daily Stormer lokað í kjölfar færslu þar sem hæðst var að Heather Heyer sem lést í átökum þjóðernissinna og mótmælenda í Charlottesville í ágúst.
Síðan bandaríska léninu var lokað hefur Daily Stormer meðal annars skráð rússneskt og albanískt lén, en þeim var báðum lokað í kjölfarið.
Skráningarskirteini Daily Stormer er enn til hjá íslensku lénaskráningunni en vefsíðan dailystormer.is er þó ekki aðgengileg á þessari stundu.