Ungur drengur í Hveragerði gekk fram á tvo dauða ketti í bænum á laugardag. Kettirnir höfðu greinilega hlotið mjög slæma meðferð, en annar kötturinn var til að mynda sundurskorinn. Lögreglunni á Suðurlandi var tilkynnt málið og hefur það nú til rannsóknar.
Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem dýraníðsmál kemur upp í bæjarfélaginu. Í ágúst árið 2015 drápust að minnsta kosti þrír kettir eftur að hafa étið fiskflök sem sprautuð höfðu verið með frostlegi. Í fyrra kom svo upp dularfullur kattadauði í Hveragerði. Málið um helgina bendir til þess að hugsanlega sé dýraníðingur aftur kominn á kreik í bæjarfélaginu.
Frétt mbl.is: Dularfullur kattadauði í Hveragerði
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt að fullyrða að málin tengist. „Við erum með allt opið í því, það er ekkert sem bendir til þess en heldur ekkert sem útilokar það.“
Engar vísbendingar hafa komið fram í málinu, sem er óupplýst eins og fyrri dýraníðsmál sem hafa komið upp í bæjarfélaginu. „Þessi mál eru óupplýst. Ef fólk hefur upplýsingar handa okkur hvetjum við það til þess að koma þeim til okkar,“ segir Oddur.
Kattavinafélagið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem félagið lýsir hryggð yfir að enn og aftur skuli dýraníðingsmál hafa komið upp í Hveragerði. Kattavinafélagið skorar á lögreglustjóra Suðurlands að taka á þessum málum og félagið hefur einnig sent MAST erindi vegna málsins.
„Enn og aftur fordæmir Kattavinafélag Íslands illa meðferð á köttum og skorar á þá aðila sem lögsögu hafa í slíkum málum að sýna að þeim standi ekki á sama og gera allt sem mögulegt er til að finna gerendur,“ segir í yfirlýsingu félagsins.