Dýraníð á ný í Hveragerði

Dularfullir dauðdagar katta hafa komið reglulega upp í Hveragerði síðastliðin …
Dularfullir dauðdagar katta hafa komið reglulega upp í Hveragerði síðastliðin þrjú ár. mbl.is/Árni Sæberg

Ungur drengur í Hveragerði gekk fram á tvo dauða ketti í bænum á laugardag. Kettirnir höfðu greinilega hlotið mjög slæma meðferð, en annar kötturinn var til að mynda sundurskorinn. Lögreglunni á Suðurlandi var tilkynnt málið og hefur það nú til rannsóknar.  

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem dýraníðsmál kemur upp í bæjarfélaginu. Í ágúst árið 2015 drápust að minnsta kosti þrír kettir eftur að hafa étið fiskflök sem sprautuð höfðu verið með frostlegi. Í fyrra kom svo upp dul­ar­full­ur katta­dauði í Hvera­gerði. Málið um helgina bendir til þess að hugs­an­lega sé dýr­aníðing­ur aft­ur kom­inn á kreik í bæj­ar­fé­lag­inu.

Frétt mbl.is: Dul­ar­full­ur katta­dauði í Hvera­gerði

Odd­ur Árna­son, yf­ir­lög­regluþjónn á Suður­landi, seg­ir í sam­tali við mbl.is að ekki sé hægt að fullyrða að málin tengist. „Við erum með allt opið í því, það er ekkert sem bendir til þess en heldur ekkert sem útilokar það.“

Engar vísbendingar hafa komið fram í málinu, sem er óupplýst eins og fyrri dýraníðsmál sem hafa komið upp í bæjarfélaginu. „Þessi mál eru óupplýst. Ef fólk hefur upplýsingar handa okkur hvetjum við það til þess að koma þeim til okkar,“ segir Oddur.

Katta­vina­fé­lagið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem félagið lýs­ir hryggð yfir að enn og aft­ur skuli dýr­aníðings­mál hafa komið upp í Hvera­gerði. Kattavinafélagið skorar á lög­reglu­stjóra Suður­lands að taka á þess­um mál­um og félagið hefur einnig sent MAST er­indi vegna máls­ins.

„Enn og aft­ur for­dæm­ir Katta­vina­fé­lag Íslands illa meðferð á kött­um og skor­ar á þá aðila sem lög­sögu hafa í slík­um mál­um að sýna að þeim standi ekki á sama og gera allt sem mögu­legt er til að finna gerend­ur,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert