Tvær gefa ekki kost á sér

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, ætlar ekki að gefa …
Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í komandi þingkosningum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins tveir þingmenn hafa lýst því yfir að þeir gefi ekki kost á sér til endurkjörs í komandi alþingiskosningum. Sjö þingmenn eru ákveðnir eða ekki náðist í þá. 

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra, sem nú sitja á þingi, gefur kost á sér til endurkjörs í alþingiskosningum 28. október næstkomandi. Morgunblaðið setti sig í samband við sitjandi alþingismenn í gær og kannaði hver staðan væri í þeirra ranni. Rauði þráðurinn í svörunum var sá að þar sem aðeins eitt ár væri liðið frá síðustu kosningum væri sjálfsagt að halda áfram. Þeir sem kjörnir voru á síðasta ári sögðust sumir rétt vera búnir að læra á starfshefðir og vinnubrögð á Alþingi. Þeir vildu jafnframt vinna áfram að brautargengi ýmissa mála sem þeir settu á oddinn. Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, nefndi þar t.d. geðheilbrigðismálin.

Línur eftir að skýrast betur

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvort ég býð mig fram að nýju,“ sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, sagðist vera að skoða hvort hún héldi áfram. Hún myndi svara því af eða á á allra næstu dögum enda væri skammur tími til stefnu. Á vettvangi Sjálfstæðisflokksins er ákvörðun um skipan framboðslista og hvernig staðið skuli að því í höndum kjördæmisráða á hverjum stað. Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að kjördæmisráðin myndu flest hver koma saman í kringum næstu helgi og ráða ráðum sínum. Eftir það myndu línur skýrast.

„Þetta hefur ekki verið rætt hjá okkur eða ákvörðun tekin,“ sagði Grímur Gíslason í Vestmannaeyjum, formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. „Ég hef hins vegar þá persónulegu skoðun að við eigum að stilla upp sömu framboðslistum og síðast, en það gerðum við á grundvelli niðurstöðu prófkjörs sem haldið var. Umboðið sem frambjóðendur fengu þar heldur enn og er skýrt. Þess utan er lítill tími núna til þess að fara í prófkjör, við þurfum að hella okkur strax í kosningabaráttuna,“ sagði hann.

Fram kom á mbl.is í gær að tveir fyrrverandi þingmenn, sem ekki náðu kjöri í kosningum á síðasta ári, væru að íhuga framboð að nýju. „Ég hef látið mér detta það í hug,“ sagði Páll Valur Björnsson í Grindavík, áður þingmaður Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi, aðspurður hvort hann íhugaði að bjóða sig fram. Hann sat á Alþingi á síðasta kjörtímabili, en sagði sig úr flokknum í kjölfar stjórnarmyndunar þar sem honum þótti Björt framtíð gefa of mikið eftir í Evrópu-, auðlinda- og umhverfismálum.

Þingmennirnir sem sitja á Alþingi í dag.
Þingmennirnir sem sitja á Alþingi í dag. Kortadeild Morgunblaðsins

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðurausturkjördæmi á síðasta kjörtímabili, segist vera að fara yfir mál og útilokar ekki endurkomu í pólitíkina. „Þetta er ekki efst í mínum huga í augnablikinu,“ sagði Karl Garðarsson sem útilokar ekki framboð – ekki frekar en Willum Þór Þórsson. Báðir sátu þeir á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á síðasta kjörtímabili. „Það lifir í pólitískum glæðum og ég hef heyrt í mörgum síðustu daga,“ sagði Willum.

Þingmenn Samfylkingarinnar sem ekki náðu endurkjöri í fyrra voru Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason og Helgi Hjörvar. Einnig Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Valgerður Bjarnadóttir sem aðspurðar eru hvorugar á leið í framboð að nýju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert