Líst mjög vel á tillögu Bjarna

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Hanna

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra er hrifinn af tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um að stjórnarskráin verði endurskoðuð í áföngum á næstu þremur kjörtímabilum.

„Mér leist mjög vel á það upplegg. Hann leggur til að það verði ákveðnir þættir skoðaðir á löngu tímabili. Auðvitað snýst þetta um verklag en ekki efni en mér fannst þetta vera jákvætt,” segir Benedikt.

Hann bætir við að Viðreisn hafi alltaf verið fylgjandi því að breytingar á stjórnarskránni skyldu skoðaðar.

„Menn hafa bent á það að þetta hefur tekið langan tíma, eða allt frá lýðveldisstofnun þannig að ég held að það væri gott ef menn ætla að reyna að fara í að kortleggja þetta af alvöru.”

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Flestir hrifnir af tillögunni

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við Morgunblaðið sér ekki lítast illa á hugmyndina. „Tíðindin í þessu minnisblaði eru þau auðvitað að þarna er gert ráð fyrir heildarendurskoðun og að það sé byggt á þeirri vinnu sem fyrir liggur.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði útspil forsætisfáðherra vera af hinu góða en hann hefði þó vilja standa öðruvísi að málinu. Flokkurinn ætti eftir að ræða málið.

Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, fannst hugmyndin ágæt og bætti við að framsóknarmenn væru að skoða hana.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gaf aftur á móti lítið fyrir tillöguna og sagði Pírata vilja klára málið með öðrum hætti. Píratar hvöttu nýlega til þess að frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem upphaflega var samið af stjórnlagaráði og lagt fram á Alþingi fyrir þingkosningarnar 2013, yrði samþykkt fyrir næstu þingkosningar.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í ræðustól á Alþingi.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í ræðustól á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tjáði sig jafnframt um stjórnarskrárbreytingar í ávarpi sínu við þingsetninguna á dögunum.

„Sum­ir í þess­um sal vilja al­ger­lega nýja stjórn­ar­skrá, aðrir litl­ar sem eng­ar breyt­ing­ar, rétt eins og skoðanir al­menn­ings eru skipt­ar. Árið 1918 varð Ísland frjálst og full­valda ríki. Tveim­ur árum síðar feng­um við Íslend­ing­ar nýja stjórn­ar­skrá, í stað þeirr­ar sem kon­ung­ur af­henti þjóðinni árið 1874. Við hæfi væri að minn­ast þess­ara miklu tíma­móta næstu miss­era, ald­araf­mæl­is full­veld­is og stjórn­ar­skrár, með því að vinna af ein­urð að breyt­ing­um á grunn­sátt­mála þjóðar­inn­ar, breyt­ing­um sem vitna um sam­eig­in­lega sýn sem flestra á um­hverfi og auðlind­ir, sam­fé­lag og stjórn­skip­un, ábyrgð og vald," sagði forsetinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert