Engin niðurstaða varð á nýafstöðnum fundi formanna flokka sem eiga sæti á Alþingi um hvernig hægt verði að ljúka þingstörfum fyrir kosningar. Formennirnir funduðu með forseta Alþingis í þinghúsinu og stóð fundurinn í einn og hálfan tíma. Ekki náðist samstaða um þau mál sem talið er einna brýnast að ljúka.
„Nei, það var engin niðurstaða, en ákvörðun tekin um að hittast á föstudag klukkan tvö og halda áfram að skoða nokkur mál,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, þegar hann kom út af fundinum. „Það eru mál sem snúa að útlendingum og börnum. Síðan er verið að skoða einhvers konar meðferð á stjórnarskrármálinu.“
Aðspurður hvort hann telji að einhver niðurstaða fáist í síðarnefnda málið segist Logi ekki bjartsýnn „Það veit maður aldrei. Það gæti alveg gerst en ég er ekkert endilega bjartsýnn.“ Einnig var rætt um uppreist æru á fundinum, að sögn Loga
Ekki var rætt hvenær setja ætti þingfund en það liggur fyrir að ef afgreiða á einhver mál þá verður að gera það.
Logi segist ekki endilega bjartsýnn á að formenn flokkanna nái samkomulagi sem allir geti sætt sig við. Hann segir það þó ekki mega gerast að ekkert mál verði afgreitt og að farið verði beint í kosningabaráttu. „Það verður þá bara að fara þarna upp og síðan verður meirihlutinn að skera úr um hvað meirihlutinn vill. Þannig virkar Alþingi.“
Hann segir þó alla reyna að gera sitt besta svo ekki verði málþóf í þinginu. „En það eru líka mál sem við teljum svo brýn að þau þurfi að ræða. Ég er þá að tala um málefni barna.“
Logi segir ekki djúpt á samkomulagi á milli manna, en það sé einhver munur. „Ég er að eðlisfari mjög bjartsýnn maður og trúi því þangað til annað kemur í ljós að við getum náð einhverri sátt.“
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir á þessu stigi óljóst um hve mörg mál er að ræða sem reyna á að ná samkomulagi um.
„Stjórnin hafði lagt fram heilmikla þingmálaskrá. Það voru mörg mál sem lágu fyrir. Við formenn flokkanna erum að reyna að ná samstöðu um nokkur lykilmál sem mega ekki bíða, mál sem við getum sammælst um að klára áður en við förum heim.“
Hann segir ekki útséð um að formennirnir verði sammála um einhver málanna. Ágreiningur um mál sé ekki djúpstæður en samkomulagi hafi engu að síður ekki verið landað. „Þetta er bæði tæknilegt og pólitískt, en svo eigum við eftir að ná endanlegri samstöðu um að þetta séu málin sem við sættum okkur á að þurfi að klára og annað bíði.“
Það eina sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vildi segja eftir fundinn, var að ekkert væri að frétta.