„Nei, það var engin niðurstaða“

Eng­in niðurstaða varð á ný­af­stöðnum fundi formanna flokka sem eiga sæti á Alþingi um hvernig hægt verði að ljúka þing­störf­um fyr­ir kosn­ing­ar. For­menn­irn­ir funduðu með for­seta Alþing­is í þing­hús­inu og stóð fund­ur­inn í einn og hálf­an tíma. Ekki náðist samstaða um þau mál sem talið er einna brýn­ast að ljúka.

„Nei, það var eng­in niðurstaða, en ákvörðun tek­in um að hitt­ast á föstu­dag klukk­an tvö og halda áfram að skoða nokk­ur mál,“ sagði Logi Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, þegar hann kom út af fund­in­um. „Það eru mál sem snúa að út­lend­ing­um og börn­um. Síðan er verið að skoða ein­hvers kon­ar meðferð á stjórn­ar­skrár­mál­inu.“

Aðspurður hvort hann telji að ein­hver niðurstaða fá­ist í síðar­nefnda málið seg­ist Logi ekki bjart­sýnn „Það veit maður aldrei. Það gæti al­veg gerst en ég er ekk­ert endi­lega bjart­sýnn.“ Einnig var rætt um upp­reist æru á fund­in­um, að sögn Loga

Ekki var rætt hvenær setja ætti þing­fund en það ligg­ur fyr­ir að ef af­greiða á ein­hver mál þá verður að gera það.

Meiri­hlut­inn verður að skera úr um hvað hann vill

Logi seg­ist ekki endi­lega bjart­sýnn á að for­menn flokk­anna nái sam­komu­lagi sem all­ir geti sætt sig við. Hann seg­ir það þó ekki mega ger­ast að ekk­ert mál verði af­greitt og að farið verði beint í kosn­inga­bar­áttu. „Það verður þá bara að fara þarna upp og síðan verður meiri­hlut­inn að skera úr um hvað meiri­hlut­inn vill. Þannig virk­ar Alþingi.“

Hann seg­ir þó alla reyna að gera sitt besta svo ekki verði málþóf í þing­inu. „En það eru líka mál sem við telj­um svo brýn að þau þurfi að ræða. Ég er þá að tala um mál­efni barna.“

Logi seg­ir ekki djúpt á sam­komu­lagi á milli manna, en það sé ein­hver mun­ur. „Ég er að eðlis­fari mjög bjart­sýnn maður og trúi því þangað til annað kem­ur í ljós að við get­um náð ein­hverri sátt.“

Ekki djúp­stæður ágrein­ing­ur 

Ótt­arr Proppé, formaður Bjartr­ar framtíðar, seg­ir á þessu stigi óljóst um hve mörg mál er að ræða sem reyna á að ná sam­komu­lagi um.

„Stjórn­in hafði lagt fram heil­mikla þing­mála­skrá. Það voru mörg mál sem lágu fyr­ir. Við for­menn flokk­anna erum að reyna að ná sam­stöðu um nokk­ur lyk­il­mál sem mega ekki bíða, mál sem við get­um sam­mælst um að klára áður en við för­um heim.“

Hann seg­ir ekki útséð um að for­menn­irn­ir verði sam­mála um ein­hver mál­anna. Ágrein­ing­ur um mál sé ekki djúp­stæður en sam­komu­lagi hafi engu að síður ekki verið landað. „Þetta er bæði tækni­legt og póli­tískt, en svo eig­um við eft­ir að ná end­an­legri sam­stöðu um að þetta séu mál­in sem við sætt­um okk­ur á að þurfi að klára og annað bíði.“

Það eina sem Katrín Jak­obs­dótt­ir, formaður Vinstri grænna, vildi segja eft­ir fund­inn, var að ekk­ert væri að frétta.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert