Ein deild lokuð á dag vegna manneklu

Leikskólinn Sunnufold.
Leikskólinn Sunnufold. ljósmynd/reykjavik.is

„Við gerum þetta svona vegna þess að við viljum vernda deildarstarf barnanna,“ segir Fanný Heimisdóttir, leikskólastjóri í Sunnufoldar í Grafarvogi. Í næstu viku mun hún grípa til þess ráðs að hafa eina deild leikskólans lokaða á hverjum degi. Skýringin á þessu er mannekla.

Samkvæmt upplýsingum á vef Reykjavíkurborgar er enn óráðið í tæplega 100 stöðugildi í leikskólum borgarinnar. Þar af vantar 60 leikskólakennara.

„Við höfum eina deild lokaða á dag, frá og með næstu viku, vegna skorts á starfsfólki,“ segir Fanný við mbl.is. Hún segir að fjóra starfsmenn vanti til að geta haldið öllum deildum opnum og sinnt öllum störfum sem þarf að sinna. Hún nefnir undirbúning leikskólakennara, sérkennslu og námskeiðahald vegna sérkennslu en auk þess sé starfsfólk í námsleyfum. 

Deildirnar á leikskólanum eru sjö og því er hver deild lokuð á sjö daga fresti. Fanný er ekki kunnugt um að aðrir leikskólar hafi farið sömu leið en segir að í staðinn hafi margir ekki tekið inn yngstu börnin. „Við fórum hina leiðina og tókum yngstu börnin inn.“ Með því bitni ástandið jafnar á öllum börnum. Að leiðarljósi sé sú sýn leikskólans að standa vörð um leikskólastarf barnanna. „Þau fá sitt starf fjóra daga í viku.“

Hún bendir hins vegar á að þetta komi illa við foreldra barnanna, sem margir séu skuldbundnir í vinnu. Á leikskólanum eru 130 börn.

Stöðug starfsmannavelta

Þriðjungur kennara í Sunnufold eru menntaðir leikskólakennarar en samkvæmt lögum skal hlutfallið vera tveir þriðju hlutar. „Það er stöðug 30% starfsmannavelta á leikskólum á ári,“ segir Fanný. Hún segir að í haust hafi unga fólkið, sem lokið hafi stúdentsprófi, ekki skilað sér eins og það jafnan gerir. Því sé staðan þessi.

Spurð hvernig foreldrar hafa brugðist við þessum fregnum segir Fanný að þessu hafi verið sýndur skilningur. „Foreldrar hafa brugðist afskaplega vel við. Þeir mæta þessu af skilningi en auðvitað er þetta ófremdarástand.“

Teymi vinna að lausnum

Á vef borgarinnar segir að skóla- og frístundaráð hafi á fundi sínum hinn 13. september samþykkt að setja á laggirnar tvö teymi til að bregðast við manneklu í leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar. „Hlutverk aðgerðarteymanna verður að móta tillögur um aðgerðir til að bæta stöðuna í ráðningarmálum og styrkja vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla og frístundar,“ segir þar. Fanný segir að hún bíði niðurstaðna nefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert