Ríkisstjórn sprengd yfir stormi í vatnsglasi

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Í mínum huga skiptir þetta verulegu máli. Það hefur miklu moldviðri verið þyrlað upp síðustu daga út af þessu máli. Mér finnst hinar greinargóðu skýringar umboðsmanns sýna að þarna hefur verið mikill stormur í vatnsglasi.“

Þetta sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, að loknum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, með Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis, í morgun. Tryggvi gerði nefndinni grein fyrir því að hann teldi ekki tilefni til þess að hefja frumkvæðisathugun á embættisfærslum í tengslum við það þegar Sigríður Andersen dómsmálaráðherra upplýsti Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um að faðir hans, Benedikt Sveinsson, hefði skrifað undir meðmæli fyrir dæmdan barnaníðing þegar hann sótti um uppreist æru.

„Hann telur að það hafi ekki falið í sér neitt trúnaðarbrot af hálfu dómsmálaráðherra að ræða þetta tiltekna mál við forsætisráðherra. Hann hefur ekki athugasemdir við þá málsmeðferð. Hann hefur heldur ekki séð tilefni til að taka upp athugun á öðrum þáttum málsins. Mér fannst hann afskaplega skýr um þá þætti,“ sagði Birgir jafnframt um það sem kom fram á fundinum.

„Síðustu daga hefur þetta samtal forsætisráðherra og dómsmálaráðherra verið gert að einhverjum miðpunkti í þessu máli og að miklu hneyksli, og ríkisstjórn sprengd út af því.“ Að mati Birgis er málinu hins vegar lokið með mjög skýrum hætti með áliti umboðsmanns Alþingis.

Hann telur því algjörlega óþarft fyrir nefndina að ráðast í sína eigin rannsókn á embættisfærslum ráðherranna. „Ég held að í ljósi þess sem umboðsmaður sagði hér, sé ekki mikið tilefni fyrir þessa nefnd til þess að leggjast í einhverja rannsókn, eins og menn hafa verið að tala um. Mér finnst hlutirnir vera orðnir býsna skýrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka