Theódóra Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, frétti af opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í fjölmiðlum og óskaði eftir áheyrnaraðild á þann fund. Hún þurfti að bíða fyrir utan fundarherbergið með blaðamönnum á meðan fundurinn greiddi atkvæði um hvort hún fengi að sitja fundinn, sem var samþykkt.
„Ég þarf hins vegar að láta kjósa mig inn í hvert sinn. Nú hef ég látið nefndarritara vita um áhuga okkar í BF á að sitja þessa fundi (ef þeir verða fleiri) og ósk um fundarboð svo hann fari ekki fram hjá okkur eins og þessi mikilvægi fundur með umboðsmanni,“ segir Theódóra í færslu á Facebook.
Frétt mbl.is: Björt framtíð mætti ekki á fund með umboðsmanni
Á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með Sigríði Andersen dómsmálaráðherra í gær lýsti Theódóra Þorsteinsdóttir afstöðu Bjartrar framtíðar vegna málsins í lok fundar. „Það er búið að ræða þetta mál hér fram og til baka og líka úti í þjóðfélaginu, ég er eiginlega miður mín yfir viðbrögðunum. Það eru mjög ólík viðmið milli manna og miðað við þann lapsus í framkvæmd eins og ráðherra orðaði hér og vélrænu afgreiðslu sem ráðherra lýsir í framkvæmd og lögum þá er það mín skoðun að það verði stærsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar, hver sem hún verður, að fara í meiri háttar úttekt á íslenskri stjórnsýslu,“ sagði Theódóra í lok fundarins.