Hatursorðræða er samfélagsmein

Pape Mamadou Faye, fótboltamaður, María Helga Guðmundsdóttir, formaður samtakanna ´78 …
Pape Mamadou Faye, fótboltamaður, María Helga Guðmundsdóttir, formaður samtakanna ´78 og Sara Mansour, aktívisti og laganemi tóku þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu um hatursorðræðu í Hörpu í dag. Sindri Sindrason stjórnaði umræðunum.

Ísland er langt á eftir norrænum ríkjum þegar kemur að umræðu og lagasetningu um hatursorðræðu. Þetta kom fram á ráðstefnu um hatursorðræðu í íslensku samfélagi sem fram fór í Hörpu í dag á vegum Æskulýðsvettvangsins. Ráðstefnan er fyrsta sinnar tegundar sem er haldin hér á landi og er liður í að gera grein fyrir samfélagsmeininu sem hatursorðræða er og finna leiðir til að sporna gegn vexti hennar í samfélaginu.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra, opnaði ráðstefnuna með ávarpi þar sem hann sagði stjórnvöld eiga mjög langt í land að koma lagaumhverfinu í rétt horf og skerpa á skilningnum hér á landi um hatursorðræðu. Það sé í vinnslu og hafi hann stigið skref í þá átt að setja heildarlöggjöf í þessa átt hér á landi.

Þorsteinn Víglundsson flutti opnunarræðu á ráðstefnu um hatursorðræðu sem fram …
Þorsteinn Víglundsson flutti opnunarræðu á ráðstefnu um hatursorðræðu sem fram fór í Hörpu í dag.

Mannréttindi og hatursorðræða nátengd

Sema Erla Serdar, verkefnastýra Æskulýðsvettvangsins, tók næst til máls og bar erindi hennar yfirskriftina „Hvað vitum við um hatursorðræðu?“

„Við getum eiginlega ekki rætt hatursorðræðu án þess að ræða um mannréttindi,“ segir Sema og vísar í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948: „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum.“

„Mannréttindi eru nátengd hatursorðræðu á ýmsa vegu og er það kannski fyrst og fremst vegna þess að hatursorðræða er byggð á viðhorfum sem ala á fordómum, á hatri og þar af leiðandi ýta undir mismunum sem er áhyggjuefni þegar kemur að mannréttindum vegna þess að það er grundvallarréttur allra einstaklinga að vera lausir við mismunun og búa við jafnrétti,“ segir Sema Erla.

Sema Erla Serdar, verkefnastýra Æskulýðsvettvangsins.
Sema Erla Serdar, verkefnastýra Æskulýðsvettvangsins.

Sema bendir á að engin ein alþjóðleg skilgreining sé til þegar kemur að hatursorðræðu. „En flestum er ljóst að um alvarlegt samfélagsmein sé að ræða sem getur haft hrikalegar afleiðingar fái það að standa óáreitt.“

Internetið er líklega stærsti vettvangur hatursorðræðu og hefur Sema Erla svo sannarlega fundið fyrir því, en hún hefur fengið ótal skilaboð á Facebook og lesið fjölmörg niðrandi ummæli um sig á athugasemdakerfum fjölmiðla. Sema Erla, sem á tyrk­nesk­an föður en er fædd og upp­al­in á Íslandi, tel­ur að tengsl henn­ar við Tyrk­land, mál­flutn­ing­ur vegna mál­efna flótta­manna og sú staðreynd að hún er kona séu á meðal ástæðna þess að hún verði fyr­ir and­legu of­beldi sem þessu.

„Það sem gerir hatursorðræði hættulega er að fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu mikil áhrif ummæli geta haft,“ segir Sema Erla. Hún segir það vera samvinnuverkefni stjórnvalda, fjölmiðla og almennings að vinna gegn þessu samfélagsmeini sem hatursorðræða er. „Við getum ekki látið þetta óáreitt. Stjórnvöld verða að fara í stefnumótunarvinnu og við verðum að gera samfélagssáttmála um að við sættum okkur ekki við þetta lengur.“

Hatursorðræða í lagalegum skilningi

Næst tók María Rún Bjarnadóttir, doktorsnemi í lögfræði við Sussex háskóla, til máls og fór hún yfir haturstal í skilningi laga. Í erindi hennar kom fram að íslensk stjórnvöld undirgengist allar þær grunnskuldbindingar sem varða tjáningarfrelsi í hinu alþjóðlega mannréttindakerfi, en með fyrirvara um ákvæði í 20. grein í samningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þar sem fjallað er um tjáningar sem ganga lengra heldur en hið hefðbundna tjáningarfrelsi.

María Rún fór einnig yfir þá dóma sem hafa fallið hér á landi í málum tengdum hatursorðræðu. „Dómaframkvæmd á Íslandi er mjög fátækleg þegar kemur að hatursorðræðu,“ segir María.

María Rún Bjarnadóttir, doktorsnemi í lögfræði við Sussex háskóla, fjallaði …
María Rún Bjarnadóttir, doktorsnemi í lögfræði við Sussex háskóla, fjallaði um haturstal í skilningi laga. mbl.is/RAX

Lögreglumenn þjálfaðir til að bera kennsl á hatursglæpi

Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi hatursglæpa, sagði frá þróunarverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varðandi hatursglæpi- og tjáningu sem hefur staðið yfir frá því í janúar 2015. Verkefnið er í takt við áherslur hinna norðurlandanna að sögn Eyrúnar.

Verkefnið er í stöðugri þróun og í byrjun árs gerði dómsmálaráðuneytið samning við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) um þjálfun lögreglumanna til að bera kennsl á hatursglæpi og rannsaka þá. Samhliða þessu fór fram þjálfun saksóknari varðandi saksókn hatursglæpa.

22 lögreglumenn hafa setið námskeið um rannsókn hatursglæpa. 30 lögreglumenn fara á sams konar námskeið í vetur. Þá hefur rannsókn hatursglæpa verið innleitt í nám lögreglumanna við Háskólann á Akureyri.

Eyrún fór einnig stuttlega yfir þann fjölda mála tengd hatursorðræðu sem lögreglan rannsakaði árið 2016, en þau voru 29 talsins.

Fjöldi fólks sótti ráðstefnu um hatursorðræðu í Hörpu í dag.
Fjöldi fólks sótti ráðstefnu um hatursorðræðu í Hörpu í dag. mbl.is/RAX

Hatursorðræða má ekki festa sig í sessi í samfélaginu

Að loknum pallborðsumræðum þar sem María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna ‘78, Pape Mamadou Faye, framherji Víkings Ólafsvíkur og Sara Mansour, aktívisti og laganemi greindu frá reynslu sinni um fordóma og hatur í íslensku samfélagi tók Sigrid Dahl, ráðgjafi hjá norska barna- og jafnréttisráðuneytisins til máls.

Hún kynnti aðgerðaráætlun norskra stjórnvalda gegn hatursorðræðu. Eitt af stærri skrefum sem stjórnvöld í Noregi hafa stigið í þeim efnum er yfirlýsing sem norska ríkisstjórnin sendi frá sér í nóvember 2015 þar sem hún heitir því að berjast gegn hatursorðræðu.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru sammála um að hatursorðræða sé vaxandi vandamál í íslensku samfélagi og að hún sé ein af þeim stóru hættum sem steðja að börnum og ungmennum í dag. Þau vona að með ráðstefnunni í dag sé hægt að opna umræðuna og leita leiða í sameiningu til þess að koma í veg fyrir að hatursorðræða festi sig í sessi í samfélaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka