Til að Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík gangi sem skyldi starfa um 70 sjálfboðaliðar við undirbúning og framkvæmd hennar. Í ár var farin sú leið að hafa samband við Félag eldri borgara sem auglýsti eftir sjálfboðaliðum gegnum vef sinn. Viðbrögðin voru góð og fimm sjálfboðaliðar koma úr hópi íslenskra eldri borgara, en annars eru sjálfboðaliðarnir mikið til ungt fólk sem jafnvel kemur erlendis frá til að starfa við hátíðina.
Verkefni sjálfboðaliðanna eru af ýmsum toga, allt frá prófarkalestri yfir í miðasölu og símsvörun. Þeir eru nokkurs konar allsherjar reddarar og því vel við hæfi að fá fólk með reynslu af lífinu til starfa.
Júlíana Pálsdóttir starfaði til margra ára við innritun farþega og uppgjör hjá Flugfélagi Íslands og Flugleiðum en er nú hætt að vinna. „Ég varð sjötug í sumar og langaði að gera eitthvað. Það vakti áhuga minn að fylgjast með hvernig svona hátíð færi fram. Svo kynnist maður mörgu fólki. Þetta er eins og að vera komin til útlanda því hér tala allir ensku. En það er bara fínt, maður er þá ekki heima að rolast á meðan,“ segir Júlíana.
Guðbjörg Betsy Petersen er lærður gullsmiður og auk þess uppeldis- og menntunarfræðingur en hætt störfum. „Þetta er nú bara forvitni fyrst og fremst,“ segir hún spurð að því hvað rak hana til að gerast sjálfboðaliði hjá RIFF. „Maður þarf alltaf að halda hausnum á sér í lagi. Þá fer maður annaðhvort á námskeið eða gerir eitthvað svona sem maður hefur ekki gert áður. Þetta er svo gaman, margir ungir krakkar að vinna við hátíðina sem er gaman að kynnast,“ segir Guðbjörg en hvorug þeirra segist vera sérstaklega mikið fyrir bíó. Sjálfboðaliðastarfið snúist meira um að prófa eitthvað nýtt og hafa nóg fyrir stafni. RIFF stendur frá 28. september til 8. október og má nálgast dagskrá og kaupa miða á www.riff.is.