Sveinn Hjörtur segir sig úr Framsókn

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, hefur ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum og frá öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Frá þessu sagði hann í tilkynningu sem Vísir greindi frá fyrr í kvöld.

Í tilkynningunni segist hann hafa orðið fyrir persónulegum hótunum í sinn garð, og fengið sinn skerf af „duldum hótunum frammámanna og trúnaðarmanna flokksins“. Segist hann ekki hafa látið ítrekaðar hótanir á sig frá, frekar trúað því að réttlætið sigri og menn sjái af sér. Því miður hafi það ekki gerst.

„Allt frá flokksþinginu 2016 hefur verið reynt að rétta út sáttarhönd til þess formanns sem nú situr. En engu hefur verið svarað og skipulögð vinna ýmissa aðila í Framsóknarflokknum er augljóslega ætluð til að ná völdum og hunsa vilja fólks til að starfa saman,“ skrifar hann. 

Þá segir hann „ákveðinn kaupfélagsstjóra á Norðurlandi“ vera þar fremstan manna „með ofurvald sitt sem hann stýrir með núverandi formanni flokksins Sigurði Inga. Auk þeirra eru aðrir sem tipla í takt við skipanir og fylgja lykt peninganna. Þetta er staðreynd um Framsóknarflokkinn í dag því miður. Nokkrir „eigendur“ hans virða ekki siðferðilegar reglur samfélagsins. Þetta veit hinn almenni flokksmaður ekki um.“

Segist Sveinn lengi hafa stutt Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hafi hann á margan hátt fengið að kenna á því „að hafa trú á manni hugsjóna og lausna“.

Hann hafi ákveðið að segja sig úr flokknum og þeim trúnaðarstörfum sem honum voru falin. „Ég trúi því að og geri mér grein fyrir því að samfélagsleg ábyrgð okkar allra er að bæta samfélagið og tryggja réttsýni og velferð. Við megum ekki gleyma uppruna okkar og reynslu. Við verðum að trúa því að við getum byggt samfélagið upp með sanngirni og staðfestu, með þori og kjark. Að því vil ég stefna!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert